Innlent

„Ekkert ó­eðli­legt í svona hrinum að virknin minnki og taki sig upp aftur“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Mikil jarðskjálftavirkni er nú á Reykjanesskaganum og virðist ekkert lát vera á skjálftunum.
Mikil jarðskjálftavirkni er nú á Reykjanesskaganum og virðist ekkert lát vera á skjálftunum. Vísir/Vilhelm

Of snemmt er að lesa nokkuð í þá stöðu að færri stórir skjálftar hafa orðið á Reykjanesskaga síðasta tæpa sólarhringinn eða svo heldur en dagana á undan.

Ekkert lát er á skjálftavirkninni þar sem fjöldi þeirra skjálfta sem mælst hefur frá miðnætti er svipaður og til dæmis í gær, eða um 600 skjálftar.

Þetta segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu.

Frá því á hádegi í gær hafa mælst nokkuð færri stórir skjálftar en síðustu daga. Tveir nokkuð snarpir skjálftar urðu í nótt, einn klukkan 02:12 að stærð 4,1 og annar sex mínútum síðar að stærð 3,2.

„Það er ekkert óeðlilegt í svona hrinum að virknin minnki og taki sig upp aftur. Það er í raun of snemmt að segja til um það núna. Við munum funda með vísindaráði, háskólanum og almannavörnum í dag og þá verður þetta rætt betur,“ segir Elísabet aðspurð um hvað megi lesa í það að færri stórir skjálftar mælast.

Hún segir í raun ekki rólegt á svæðinu þar sem skjálftavirknin hefur verið mest undanfarið.

„Það er alveg jafnmikið af skjálftum en þeir eru ekki alveg jafnsterkir þannig að vonandi fékk fólk smá svefnfrið í nótt,“ segir Elísabet.

Skjálftahrinan hófst af miklum krafti fyrir viku síðan og hafa síðan þá margir skjálftar yfir fjórum og nokkrir yfir fimm að stærð riðið yfir.

Jarðvísindamenn telja líklegustu skýringuna fyrir skjálftunum þá að kvikugangur sé að myndast undir svæðinu þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×