Enski boltinn

Solskjær hefur áhyggjur: Klopp náði að hafa áhrif á dómarana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, vildi fá víti á móti Chelsea í gær. Hann hefur áhyggjur af því að dómarar séu farnir að hugsa sig tvisvar um áður en þeir gefa United liðinu vítaspynu.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, vildi fá víti á móti Chelsea í gær. Hann hefur áhyggjur af því að dómarar séu farnir að hugsa sig tvisvar um áður en þeir gefa United liðinu vítaspynu. Getty/Matthew Peters

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var mjög ósáttur með að fá ekki víti í markalausa jafnteflinu við Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Solskjær fór svo langt að segja að ef að þetta hafi ekki verið hendi þá væri hann blindur og að saka aðra knattspyrnustjóra í deildinni um að hafa náð að hafa áhrif á dómarana í deildinni.

Stuart Attwell, dómari leiks Chelsea og Manchester United í gær, fór og skoðaði atvikið á skjá en ákvað að dæma ekki víti. Boltinn fór vissulega í hendi Callum Hudson-Odoi en dómaranum fannst það ekki nóg til að gefa víti.

Solskjær talaði um það að hans menn í United liðinu hafi þarna verið rændir tveimur stigum.

Solskjær sagði líka að knattspyrnustjórar eins og Klopp hafi náð að hafa áhrif á dómarana þegar kemur að leikjum Manchester United liðsins.

Fyrir leik Liverpool og Manchester United fyrr í vetur þá talaði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, um það að United liðið hefði fengið fleiri víti á sínu tveimur og hálfu ári og hann á öllum fimm og hálfu ári í enska boltanum.

United hefur núna fengið átta vítaspyrnur eða tveimur fleiri en Liverpool. Solskjær sagði að þessi orð hafi haft neikvæð áhrif á sitt lið.

„Við áttum að fá víti og það er klárt. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að við fáum ekki þessi víti eftir að menn fóru að tala um það fyrir mánuði eða tveimur að við værum að fá öll þessi víti. Þetta er klárlega dæmi um að knattspyrnustjórar eru að ná að hafa áhrif á dómarana sem þeir ættu ekki að gera,“ sagði Ole Gunnar Solskjær og hann er viss um að orð Jürgen Klopp hafi haft áhrif.

„Knattspyrnustjórar eru að hafa áhrif á dómarana. Ég treysti dómurunum að láta þetta ekki hafa áhrif á sig en ég var mjög hissa á þessari ákvörðun,“ sagði Solskjær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.