Enski boltinn

Ungi Liverpool strákurinn tileinkaði markið sitt föður Alisson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Curtis Jones fagnar markinu sínu mikilvæga á móti Sheffield United í gærkvöldi.
Curtis Jones fagnar markinu sínu mikilvæga á móti Sheffield United í gærkvöldi. AP/Shaun Botterill

Hugur hetju Liverpool liðsins í gær var hjá liðsfélaga hans sem átti um sárt að binda og var ekki með liðinu í gær.

Liverpool liðið náði loksins að vinna deildarleik í gær þegar liðið heimsótti Sheffield United. Það tók langan tíma að brjóta ísinn þrátt fyrir stórsókn. Yngsti maður liðsins skoraði markið mikilvæga.

Curtis Jones skoraði nefnilega þetta lífsnauðsynlega mark sem kom Liverpool í 1-0 og lagði gruninn að sigrinum. Þetta var fyrsta deildarmark hans á tímabilinu en hann hafði einnig skorað á móti Ajax í Meistaradeildinni.

Eftir leikinn tileinkaði þessi tvítugi strákur markið föður brasilíska markvarðarins Alisson Becker.

Alisson Becker var ekki í hóp hjá Liverpool í leiknum í gær en brasilíski markvörðurinn missti föður sinn fyrir helgi. Hinn 57 ára gamli Jose Agostinho Becker drukknaði þá í uppistöðulóni nálægt sumarhúsi fjölskyldunnar.

Curtis Jones var hugsað til liðsfélaga síns eftir leikinn og sendi honum samúðar- og stuðningskveðjur.

„Ég vil nota þetta tækifæri til að segja það að þetta mark var fyrir föður Allison. Hvíldu í friði,“ sagði Curtis Jones í viðtali við Sky Sports og bætti síðan við.

„Ef Alisson sér þetta, þá var þetta fyrir þig bróðir,“ sagði Jones.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.