Erlent

Minnst tíu mót­mælendur drepnir í Mjanmar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þungvopnuð lögregla handtekur blóðugan mótmælanda.
Þungvopnuð lögregla handtekur blóðugan mótmælanda. Aung Kyaw Htet/SOPA Images/LightRocket via Getty

Lögregla í Mjanmar hefur orðið minnst tíu mótmælendum að bana víða um landið. Harka hefur færst í viðbrögð hersins við mótmælum gegn valdaráni sem framið var í Mjanmar fyrr í mánuðinum. Tugir mótmælenda hafa þá særst.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að lögregla hefði skotið mótmælendur til bana í borgunum Yangon, Dawei og Mandalay. Mótmælendahópar hafa verið beittir táragasi, gúmmíkúlum og alvöru byssukúlum.

Öryggissveitir á vegum hersins hafa um helgina tekið upp enn meiri hörku gegn mótmælendum, sem hafa látið í sér heyra síðan herinn tók völdin í landinu í byrjun febrúar og nokkrir af helstu leiðtogum landsins, þar á meðal Aung San Suu Kyi, sem í raun hefur leitt landið síðustu ár eftir að herinn losaði tök sín, voru hnepptir í varðhald. Mótmælin hafa að mestu leyti verið friðsamleg.

Myndbönd og myndir af samfélagsmiðlum sýna mótmælendur reyna að forða sér undan öryggissveitum og lögreglu sem fylgja þeim fast á eftir. Þá sjást sveitirnar reisa vegatálma og leiða einhverja mótmælendur blóðuga í burtu.

Tala látinna mótmælenda er á einhverju reiki, en einhverjir mjanmarskir aðgerðasinnar hafa á samfélagsmiðlum sagt frá því að allt að tuttugu mótmælendur hafi beðið bana í átökum við lögreglu.

Í samtali við AFP-fréttastofuna sagði einn mótmælandi að lögregla hefði byrjað að skjóta mótmælendur við fyrstu sýn.

„Lögreglan hóf skothríð um leið og við mættum. Við fengum enga viðvörun. Sumir [mótmælendur] særðust og sumir eru enn að fela sig í húsum nágranna sinna,“ sagði mótmælandinn Amy Kyaw.


Tengdar fréttir

Blóðugur dagur í Mjanmar

Minnst tveir eru látnir eftir að hermenn hófu skothríð á mótmælendur sem voru að mótmæla valdaráni hers Mjanmar. Fregnir herma að tugir hafi særst í skothríðinni sem hófst nærri hafnarsvæði Mandalay, næst stærstu borg ríkisins.

Fjölmenn mótmæli í skugga skothríðar

Þúsundir mótmælenda gengu um götur borga Mjanmar í morgun, þrátt fyrir að hermenn hafi skotið minnst tvo mótmælendur til bana í gær og sært marga aðra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.