Erlent

Blóðugur dagur í Mjanmar

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Samúel Karl Ólason skrifa
Dagurinn í dag er sagður einn sá blóðugasti til þessa en mótmæli hafa staðið yfir í um tvær vikur eftir að herinn hrifsaði til sín völdin í landinu. 
Dagurinn í dag er sagður einn sá blóðugasti til þessa en mótmæli hafa staðið yfir í um tvær vikur eftir að herinn hrifsaði til sín völdin í landinu.  EPA/KAUNG ZAW HEIN

Minnst tveir eru látnir eftir að hermenn hófu skothríð á mótmælendur sem voru að mótmæla valdaráni hers Mjanmar. Fregnir herma að tugir hafi særst í skothríðinni sem hófst nærri hafnarsvæði Mandalay, næst stærstu borg ríkisins.

Harka hermanna gegn mótmælendum hefur aukist verulega á undanförnum dögum, samhliða auknum ágangi mótmælenda sem hafa ekki látið af mótmælum þrátt fyrir aukna hörku hermanna. Blaðamaður AP fréttaveitunnar segir að hermenn hafi byrjað að skjóta á mótmælendur með gúmmíkúlum og beitt þá táragasi auk þess sem nokkrir hafi verið fluttir á sjúkrahús.

Annar hinna látnu er sagður hafa verið skotinn í höfuðið og hafi látist samstundis. Hinn var skotinn í bringuna og lést af sárum sínum á leiðinni á sjúkrahús að því er fréttamiðillinn Frontier Myanmar greinir frá og haft er eftir í frétt AP.

Fjölmargir hafa birt myndir og myndbönd frá mótmælunum á samfélagsmiðlum, þeirra á meðal blaðamenn og aðgerðasinnar fyrir mannréttindum.

Blaðamaður AP sem varð vitni að átökunum á vettvangi segir að um fimm hundruð lögregluþjónar og hermenn hafi lagt leið sína niður að hafnarsvæðinu eftir að starfsfólk sem vinnur við höfnina gengu til liðs við mótmælendur og hafa hótað að leggja niður störf ef herinn gefst ekki upp og hleypir lýðræðslega kjörnum stjórnvöldum aftur til valda.

Bæði mótmælendur og íbúar á svæðinu hafa séð sig knúna til að flýja vegna ofbeldis af hálfu hermanna. Hópur blaðamanna hefur sömuleiðis neyðst til að flýja eftir að verða fyrir aðkasti af hálfu öryggissveita sem meðal annars munu hafa beitt táragasi gegn blaðamönnum.

Mótmælendur minnast Mya Thwe Thwe Khaing sem var skotin til bana fyrr í þessum mánuði. EPA/LYNN BO BO

Þá hafa þúsundir mótmælenda í tveimur stærstu borgum landsins komið saman og vottað Mya Thwet Thwet Khine virðingu sína en Mya var skotin til bana í höfuðborginni Naypyitaw þann 9. Febrúar, tveimur dögum fyrir tuttugu ára afmælisdaginn sinn. Andlát hennar er fyrsta dauðsfallið sem staðfest hefur verið í tengslum við mótmælin sem brutust út í kjölfar valdaránsins.

Fréttastofa Reuters hefur eftir viðbragðsaðilum og heilbrigðisstarfsfólki að dagurinn í dag sé líklega sá blóðugasti til þessa, en mótmælin hafa staðið yfir í um tvær vikur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.