Erlent

Fjórir menn fundust látnir í vök

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan telur ekki að andlát mannanna hafi borið að með saknæmum hætti.
Lögreglan telur ekki að andlát mannanna hafi borið að með saknæmum hætti. Getty

Fjórir karlmenn drukknuðu í ísilögðu stöðuvatni skammt frá Sävsjö í suðurhluta Svíþjóðar í dag. Þeir voru á sjötugs- og áttræðisaldri.

Samkvæmt sænska miðlinum Aftonbladet var lögreglu og sjúkraflutningamönnum á svæðinu gert viðvart og voru viðbragðsaðilar komnir á vettvang í kringum hálf sjö að staðartíma í kvöld.

„Almennur borgari hafði séð björgunarhring á ísnum án þess að sjá nokkurn í grenndinni. Viðbragðsaðilum tókst að finna fjórar manneskjur og draga þær upp úr vök á vatninu,“ hefur Aftonbladet eftir Björn Öberg, fjölmiðlafulltrúa lögreglunnar á svæðinu.

Lögregla tilkynnti svo um að mennirnir fjórir væru látnir um klukkan hálf ellefu að staðartíma. Tveir mannanna voru á sjötugsaldri en hinir tveir á áttræðisaldri. Lögregla telur að um slys hafi verið að ræða.

„Við teljum ekki að neitt saknæmt hafi átt sér stað. En við vitum ekki mikið um hvað gerðist eða aðstæðurnar í kringum málið,“ hefur Aftonbladet eftir Camillu Larsson hjá lögreglunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×