Enski boltinn

Sagði víta­spyrnudóminn á Anfield há­réttan dóm

Anton Ingi Leifsson skrifar
Víti, að mati Mark Clattenburg.
Víti, að mati Mark Clattenburg. Laurence Griffiths/PA Images

Mark Clattenburg, fyrrum dómari á Englandi, segir að vítaspyrnan sem Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í 2-0 sigri Everton á Liverpool um helgina hafi verið réttur dómur.

Everton vann loksins sigur á Liverpool um helgina eftir tíu ára bið. Í raun hafa þeir beðið á þriðja áratug eftir sigri á Anfield en síðasti sigur þeirra bláklæddu þar kom árið 1999.

Richarlison kom Everton yfir snemma leiks en Dominic Calvert-Lewin fékk svo vítaspyrnu seint í leiknum sem íslenski landsliðsmaðurinn skoraði úr.

Clattenburg, sem er nú dómari í Kína, segir að Chris Kavanagh hafi gert hárrétt með að dæma víti og var ánægður að Arnold hafi ekki fengið að líta rauða spjaldið.

„Dominic Calvert-Lewin var einn gegn opnu marki svo það var enginn ástæða fyrir hann að dýfa sér. Trent hindraði hann, setti höfuðið upp og bjó til snertinguna,“ sagði Clattenburg í pistli sínum á Daily Mail.

„Þetta var víti en það var gaman að sjá dómarann lesa leikinn og gefa Trent ekki rautt spjald. Hinn 22 ára gamli hefði getað fengið rautt fyrir að ræna upplögðu marktækifæri - ef hann hefði farið eftir sömu reglum og þegar David Luiz fékk rautt gegn Wolves.“

„Arsenal varnarmaðurinn rakst í Willian Jose og hann fékk rautt spjald og var sendur af velli. Kavanagh eyddi bara örfáum sekúndum við VAR-skjáinn en hann var ekki að kíkja hvort þetta væri víti.“

„Hann og VAR-dómarinn Andre Marriner höfðu báðir sagt að þetta væri víti en hann kíkti hvort að Trent hefði átt að fá rautt spjald. Kavanagh ákvað að refsa ekki Liverpool og það ætti að breyta reglunum svo það verði ekki fleiri óréttlát rauð spjöld eins og Luiz fékk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×