Enski boltinn

Skipt inn á í hálf­leik en tekinn út af hálf­tíma síðar: „Slæmt við­horf“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mynd af Callum Hudson-Odoi þær þrjátíu mínútur sem hann spilaði.
Mynd af Callum Hudson-Odoi þær þrjátíu mínútur sem hann spilaði. Neil Hall/Getty

Callum Hudson-Odoi, leikmaður Chelsea, vill væntanlega gleyma leiknum gegn Southampton sem fyrst. Hudson-Odoi kom inn á sem varamaður í leik dagsins en var skipt af velli á 75. mínútu.

Southampton gerði 1-1 jafntefli við Chelsea í fyrsta leik dagsins í enska boltanum. Southampton komst yfir en Mason Mount jafnaði úr vítaspyrnu. Tuchel var ekki sáttur með spilamennsku fyrri hálfleiks og tók Tammy Abraham út fyrir Hudson-Odoi.

„Ég hef ekki áhyggjur af Tammy Abraham. Þetta voru ekki meiðsli. Það var erfitt fyrir hann að sýna styrkleika sína og hann átti í vandræðum svo við ákváðum að skipta um leikkerfi,“ sagði Tuchel í leikslok.

Skiptingin skilaði þó ekki sínu því eins og áður segir var Hudson-Odoi einungis inni á vellinum í hálftíma.

„Við settum Callum Hudson-Odoi inn en ég var ekki ánægður með viðhorfið hans, orkuna og gagnpressuna. Ég tók hann út af því ég ætlast til þess að menn séu hundrað prósent þegar eir spila.“

„Mér fannst hann ekki vera í rétta forminu til þess að hjálpa okkur og þetta var erfið ákvörðun en á morgun gleymum við þessu og hann á möguleika á því að byrja gegn Atletico Madrid,“ sagði Tuchel.

Chelsea mætir Atletico Madrid á útivelli á þriðjudaginn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.