Íslenski boltinn

Kefla­vík og Leiknir R. með stór­sigra á meðan HK lagði Aftur­eldingu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kian Paul James Williams var meðal markaskorara Keflavíkur í dag.
Kian Paul James Williams var meðal markaskorara Keflavíkur í dag. Vísir/Vilhelm

Þremur leikjum til viðbótar í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu er nú lokið. Keflavík vann Vestra 5-0, Leiknir Reykjavík vann ÍBV 4-1 og HK vann Aftureldingu 2-0 í Kórnum.

Sigurliðin leika öll í Pepsi Max deildinni í sumar á meðan tapliðin eru öll deild neðar í Lengjudeildinni. Keflavík og Leiknir Reykjavík verða bæði nýliðar.

Í Reykjaneshöllinni unnu heimamenn í Keflavík öruggan 5-0 sigur á Vestra frá Ísafirði. Magnús Þór Magnússon skoraði fyrsta mark leiksins á þriðju mínútu og Helg Þór Jónsson tvöfaldaði forystuna þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, staðan 2-0 í hálfleik.

Í þeim síðari bættu Ari Steinn Guðmundsson og Kian Paul James Williams við mörkum fyrir Keflavík áður en Friðrik Þórir Hjaltason varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Lokatölur 5-0 í leik sem var að því virðist ansi grófur en alls fór gula spjaldið sjö sinnum á loft.

Vestri hefur tapað báðum leikjum sínum til þessa en Keflavík gerði 3-3 jafntefli við Gróttu í fyrstu umferð.

Í Breiðholti var ÍBV í heimsókn. Eyjamenn fara súrir heim en þeir skoruðu sárabótarmark undir lok leiks, lokatölur 4-1.  Fyrirliðinn Sævar Atli Magnússon skoraði þrennu fyrir Leikni R. og miðvörðurinn Bjarki Aðalsteinsson bætti við fjórða markinu. Var staðan orðin 4-0 í hálfleik.

Leiknir bætti þar með upp fyrir 4-0 tapið í fyrstu umferð. ÍBV hefur hins vegar tapað báðum leikjum sínum hingað til.

Þá vann HK 2-0 sigur á Aftureldingu í blíðskaparveðri inn í Kór í Kópavogi. Markaskorara vantar enn úr þeim leik. HK hefur nú leikið tvo leiki og unnið þá báða 2-0. Afturelding vann Víking Ólafsvík 3-0 í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×