Erlent

Spilavíti Trumps jafnað við jörðu

Samúel Karl Ólason skrifar
Niðurrif hússins tók einungis tuttugu sekúndur.
Niðurrif hússins tók einungis tuttugu sekúndur. AP/Seth Wenig

Trump Plaza spilavítið í Atlantic City í Bandaríkjunum var jafnað við jörðu í dag. Sprengiefni voru notuð til að láta háhýsið falla inn á sig og urðu engar skemmdir á öðrum byggingum sem stóðu þar nærri.

Spilavítið og hótelið hafði staðið tómt frá 2014 og var ástand byggingarinnar orðið verulega slæmt. Fjölmiðlar vestanhafs segja að brak hafi verið byrjað að falla af byggingunni og því hafi verið ákveðið að jafna hana við jörðu.

Fyrsta sprengingin heyrðist skömmu eftir klukkan tvö í dag (níu að staðartíma) og um tuttugu sekúndum seinna var háhýsið horfið og ekkert eftir nema rykmökkur.

Þó Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hafi látið byggja bygginguna hefur hún verið í eigu auðjöfursins Carl Icahn undanfarin ár. Hann eignaði tvö spilavíti Trump árið 2016 eftir síðasta gjaldþrot þeirra, af mörgum.

Trump opnaði spilavítið árið 1984 og gekk rekstur þess vel um tíma. AP fréttaveitan segir það hafa verið stærsta spilavíti Atlantic City um tíma.

Halla fór undan rekstrinum eftir að Trump opnaði annað spilavíti, Taj Mahal, nærri því fyrra. Þegar því var lokað árið 2014 skilaði Trump Plaza verstri afkomu af öllum spilavítum Atlantic City.


Tengdar fréttir

Nava­jo-stromparnir jafnaðir við jörðu

Umhverfisverndarsinnar hrósuðu sigri á föstudag þegar strompar kolaverksmiðjunnar í Navajo voru jafnaðir við jörðu. Verksmiðjunni var endanlega lokað í nóvember á síðasta ári þegar síðustu birgðir kláruðust.

Myndband frá falli skorsteinsins

Skorsteinn Sementsverksmiðjunnar á Akranesi var felldur í dag en fylgst var með herlegheitunum í beinni á Vísi, í fréttinni má sjá myndband frá framkvæmdunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×