Enski boltinn

Guardiola óttast afleiðingar landsleikjahlésins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola lenti í því fyrr í vetur að það komu upp smit innan Manchester City liðsins.
Pep Guardiola lenti í því fyrr í vetur að það komu upp smit innan Manchester City liðsins. Getty/Michael Steele

Bestu knattspyrnumenn heims fara á flakk í næsta mánuði og þar á meðal íslensku landsliðsstrákarnir. Einn knattspyrnustjórinn í ensku úrvalsdeildinni er strax farinn að vara við afleiðingunum.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur áhyggjur af því að komandi landsleikjahlé gæti haft skelfilega afleiðingar fyrir sitt lið í titilbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

Manchester City hefur unnið sextán leiki í röð í öllum keppnum og komið með örugga forystu á toppi deildarinnar.

Guardiola er farinn að hugsa fram í tímann og hefur sérstakar áhyggjur af því hvað gerist eftir landsleikjahléið sem er 22. til 31. mars næstkomandi.

Guardiola talaði um áhættuna að landsliðsmenn sínir næli sér í kórónuveiruna á ferðinni um heiminn og þynni hópinn hans í framhaldinu.

„Eina leiðin til að verja sig fyrir þessum vírus er að vera heima og fara ekki neitt, halda fjarlægð, snerta engan og ferðast ekki,“ sagði Pep Guardiola á blaðamannafundi.

„Núna fer fólk að ferðast og leikmenn hitta sín landslið. Það er erfitt að stjórna slíkum aðstæðum og ég held að smit eigi eftir að aukast, því miður,“ sagði Guardiola.

„Ég vildi helst getað spáð því að ekkert eigi eftir að gerast en við höfum reynsluna af því að áður hafi slíkt þegar gerst í tveggja eða þriggja vikna bylgjum. Svo ef þú tekur áhættu á því að smitast þá munu einhverjir smitast,“ sagði Guardiola.

„Mér finnst að enska úrvalsdeildin eigi að hafa áhyggjur af þessu og í raun allar deildir,“ sagði Guardiola.

Manchester City mætir Everton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en leikurinn fer fram á Goodison Park. Sá leikur átti að fara fram í desember en varð frestað eftir að smit kom upp í liði Pep Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×