Erlent

Týnda prinsessan fékk ekki að fara út né opna glugga

Samúel Karl Ólason skrifar
Prinsessan Sheikha Latifa árið 2018, skömmu áður en hún reyndi að flýja frá Dubai öðru sinni. Hún var þá 32 ára gömul.
Prinsessan Sheikha Latifa árið 2018, skömmu áður en hún reyndi að flýja frá Dubai öðru sinni. Hún var þá 32 ára gömul.

Prinsessan Latifa Al Maktoum, dóttir Mohammed bin Rashid Al Maktoum, varaforseta og forsætisráðherra Sameinuðu arabíska furstadæmanna, sem reyndi að flýja landið árið 2018, hefur sent frá sér skilaboð þar sem hún segir föður sinn halda sér í gíslingu og hún óttist um líf sitt.

Skilaboðunum kom hún til vina sinna, sem hafa deilt þeim með BBC. Hún segir að þegar hún reyndi að flýja land árið 2018 hafi sérsveitarmenn sigið úr þyrlu um borð í bát hennar undan ströndum Indlands, gefið henni deyfilyf og flutt hana aftur í land.

Sjá einnig: Týnda prinsessan af Dúbaí hafði skipulagt flótta í sjö ár

Síðan þá hefur henni verið haldið í húsi í Dubai undir sólarhrings eftirliti. Vinir Latifu segja hana nú hætta að senda þeim skilaboð og óttast þeir um öryggi hennar. Því hafi þeir fært blaðamönnum BBC skilaboðin sem hún hafi sent.

Í skilaboðunum segir Latifa að henni sé haldið í glæsihýsi. Hún fái hvorki að fara út né opna glugga og að lögregluþjónarnir sem haldi henni hafi gantast með að hún muni aldrei sjá til sólar aftur.

Hér má sjá fréttaskýringaþátt BBC, Panorama, þar sem fjallað var um skilaboðin frá prinsessunni í síðasta mánuði.

Sjeikinn Mohammed bin Rashid Al Maktoum er einn auðugasti ríkishöfðingi heimsins. Hann er auk þess að vera varaforseti og forsætisráðherra, leiðtogi Dubai. Sjötta og yngsta eiginkona hans, Haya Bint al-Hussein, var árið 2019 sögð hafa flúið land og halda til í London.

Hún höfðaði mál gegn sjeiknum í Bretlandi og í fyrra komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að hann hefði hótað henni og látið ræna dætrum sínum.

Auk Latifu, mun sjeikinn einnig hafa látið ræna Shamsu Al Maktoum frá Englandi árið 2000.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×