Innlent

Telur Alla með eitt af stærri for­varna­verk­efnum sem ýtt hefur verið úr vör

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála í Reykjanesbæ.
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála í Reykjanesbæ. Vísir

Reykjanesbær hrinti af stað stóru samfélagsverkefni á síðasta ári sem miðar að því öll börn fái tækifæri á að taka þátt í skipulögðu tómstundastarfi. Lögð er áhersla á jákvæð samskipti og hafa þegar verið gerð þrjátíu myndbönd til að kynna tómstundastarf í bænum.

Reykjanesbær hefur sett sér það markmið að vera fjölskylduvænn bær sem þroskar og nærir hæfileika allra í gegn um skóla, íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf. Samfara því hefur verkefninu Allir með verið ýtt úr vör.

„Við vorum lánsöm að fá styrk frá félagsmálaráðuneytinu til þess að geta hleypt af stað einu stærsta forvarnaverkefni sem við höfum sett á laggirnar og ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé eitt af stærri forvarnaverkefnum sem hefur farið af stað hjá einu sveitarfélagi,“ segir Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ.

Allir með beinist að 10-12 ára börnum í Reykjanesbæ.

„Meginmarkmiðið er að styrkja jákvæð samskipti barna og sterka félagsfærni og byggja börn upp sem sterkur hluti af samfélagsheildinni okkar,“ segir Hilma.

Kennarar, skátaforingjar, skólaliðar og þjálfarar, eða allir sem vinna með grunnskólabörnum, fá fræðslu og þjálfun.

„Við vorum að þróa þetta í vor og þá auðvitað komu þessar miklu áskoranir með heimsfaraldrinum þannig að við fengum enn meiri kraft til þess að gera vel,“ segir Hilma.

Íbúar eru hvattir til að taka þátt í verkefninu á heimasíðu Reykjanesbæjar og skrifa undir samfélagssáttmála.

„Þátttakan fyrst og fremst verður mæld og svo í framhaldinu sjáum við fyrir okkur að geta gert frekari skoðanir, rannsóknir og kannanir á þessu verkefni,“ segir Hilma Hólmfríður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×