Fulltrúadeildarþingmaðurinn Jamie Raskin leiðir sækjendur fulltrúadeildarinnar og byrjaði hann á ræðu þar sem hann fór yfir málflutning teymisins og taldi upp ástæður fyrir því að hann teldi öldungadeildarþingmenn verða að sakfella forsetann fyrrverandi.
Fylgjast má með réttarhöldunum hér að neðan.
Í gær fóru fram umræður um það hvort það færi gegn stjórnarsrká Bandaríkjanna að rétta yfir fyrrverandi forseta. Undir lok kvöldsins greiddu sex þingmenn Repúblikanaflokksins atkvæði með Demókrötum svo réttarhöldin gátu haldið áfram.
Trump sjálfur er sagður hafa verið verulega ósáttur við frammistöðu verjenda sinna í gær.
Sjá einnig: Trump sagður mjög ósáttur við frammistöðu verjenda sinna
Trump var ákærður fyrir embættisbrot öðru sinni þann 13. janúar, sjö dögum áður en hann lét af embætti. Hann er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur verið ákærður fyrir embættisbrot tvisvar sinnum.
Sjá einnig: Trump ákærður fyrir embættisbrot öðru sinni
Trump er í raun ákærður fyrir að hvetja til uppreisnar og snýr ákæran sérstaklega að hlutverki forsetans í því að æsa fólk upp, sem á endanum braut sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar, með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna í nóvember.
Raskin sagði í upphafsræðu sinni að málið snerist ekki um stjórnarskrárvarinn rétt Trumps til málfrelsis, eins og verjendur forsetans hafa haldið fram. Setti hann málið í samhengi við gamlan úrskurð Hæstaréttar Bandaríkjanna um málfrelsi og það að maður megi ekki kalla „eldur“ í fullum kvikmyndasal.
Raskin: "This case is much worse than someone who falsely shouts fire in a crowded theater. It's more like like a case where the town fire chief, who's paid to put out fires, sends a mob not to yell fire in a crowded theater, but to actually set the theater on fire." pic.twitter.com/wj61BjDMaX
— Aaron Rupar (@atrupar) February 10, 2021