Enski boltinn

„Ekkert sjálfs­traust, enginn karakter og enginn leið­togi“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Myndin segir meira en þúsund orð um stöðuna hjá Tottenham eins og er.
Myndin segir meira en þúsund orð um stöðuna hjá Tottenham eins og er. Clive Rose/Getty Images

Rio Ferdinand, fyrrum fyrirliði Manchester United, var ekki brosmildur er hann ræddi um frammistöðu Tottenham gegn Chelsea í gærkvöldi. Leiknum lauk með 1-0 sigri Chelsea.

Þetta var þriðja tap Tottenham í röð en Rio Ferdinand var einn þeirra sem greindi leikinn fyrir BT Sport. Hann segir að það sé ansi mikið tekið úr liðinu er Harry Kane spilar ekki.

„Þetta var stefnulaus frammistaða. Það var ekkert í þessu. Ekkert líf. Ef Kane spilar ekki þá er allt líf tekið úr liðinu. Ekkert sjálfstraust, enginn karakter, enginn leiðtogi. Enginn að drífa liðið áfram,“ sagði Rio.

„Hvort að það eru leikmennirnir eða stjórinn sem þarf að drífa þá áfram, þá held ég að það sé bæði. Við sáum þá gegn Brighton í síðustu viku og Brighton leit út eins og lið sem væri á leið í Meistaradeildina. Þetta er áhyggjuefni.“

„Þeir eru ekki langt frá Meistaradeildarsæti hvað varðar stig en frammistaða þeirra undanfarin er mikið áhyggjuefni.“

Með Rio í settinu í gær var fyrrum leikmaður Tottenham, Jermaine Jenas. Hann er ekki hrifinn af liðinu sínu.

„Það er ekkert plan. Það er vandamálið,“ sagði Jenas. „Ég horfi á leikmennina sem eru hræddir og vilja ekki fá boltann. Það er stærsti glæpur sem þú getur framið sem fótboltamaður.“

„Annað sem er vandamál er líkams tilburðir þeirra. Serge Aurier stendur þarna og gerir ekkert. Vinicius, viltu hjálpa og hlaupa í kanalana? Nei, stendur og horfir. Leikmennirnir hafa ekki áhuga á þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×