Íslenski boltinn

Stóðu við stóru orðin og fengu sér allar Hamarshúðflúr

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stelpurnar sýna hér nýju Hamarshúðflúrin sín. Þetta eru þær Hrefna Ósk Jónsdóttir, Dagný Rún Gísladóttir og Elín Hrönn Jónsdóttir
Stelpurnar sýna hér nýju Hamarshúðflúrin sín. Þetta eru þær Hrefna Ósk Jónsdóttir, Dagný Rún Gísladóttir og Elín Hrönn Jónsdóttir Instagram/@hamarkvk

Þær munu örugglega ekki gleyma fyrsta tímabili kvennafótboltaliðs Hamars í bráð en ef það er einhver hætta á því þá nægir þeim hér eftir að skoða bara upphandlegginn sinn.

Þrír leikmenn í kvennaliði Hamars stóðu við stóru orðin og fengu sér húðflúr í tilefni af árangri liðsins í 2. deildinni síðasta sumar.

„Nú er komið að skuldadögum. Í byrjun síðasta sumars þá kom spá þar sem okkur var spáð níunda sæti í deildinni. Ég gubbaði út úr mér að ég myndi fá mér Hamars tattú ef við myndum lenda í sjötta sæti eða hærra. Þær tvær sögðu: Við líka,“ sagði Dagný Rún Gísladóttir, fyrirliði Hamars, á Instagram síðu Hamarskvenna.

Hinir leikmennirnir eru þær Hrefna Ósk Jónsdóttir og Elín Hrönn Jónsdóttir en allar eru stelpurnar á 24. aldursári.

Þær tróðu hinum fræga sokk upp í spámennina með því að ná þessu sjötta sæti á sínu fyrsta tímabili hjá kvennaliði félagsins frá upphafi.

Hamarsliðið vann fjóra leiki, gerði tvö jafntefli og skoraði tuttugu mörk á tímabilinu. Liðið skoraði fleiri mörk en Hamrarnir sem voru í næsta sæti fyrir ofan þær en fengu fjórum stigum færra.

Stelpurnar leyfðu líka fylgjendum Instagram síðu sinnar að fylgjast með því þegar þær fengu sér þessi Hamarshúðflúr.

Þær þekkjast nú á upphandleggnum eins og sjá má betur hér fyrir neðan.

Instagram/@hamarkvk
Instagram/@hamarkvkFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.