Enski boltinn

Jesse Lingard var bara eitt stórt bros í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jesse Lingard fagnar öðru mark sinna í fyrsta leiknum með West Ham United en með honum eru Ryan Fredericks og Tomas Soucek.
 Jesse Lingard fagnar öðru mark sinna í fyrsta leiknum með West Ham United en með honum eru Ryan Fredericks og Tomas Soucek. Getty/Shaun Botterill

Jesse Lingard hafði ekki fengið eina sekúndu í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en nýtti níutíu mínúturnar sínar vel í búningi West Ham í gærkvöldi.

Það er auðvelt að samgleðgjast Jesse Lingard eftir frammistöðu hans með West Ham í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi en það hefur reynt mikið á hann að þurfa að dúsa út í kuldanum á Old Trafford.

Manchester United lánaði Jesse Lingard til West Ham í síðustu viku og það er óhætt að segja að þessi fyrrum enski landsliðsmaður hafi slegið í gegn í fyrsta leik. Lingard skoraði tvö mörk í 3-1 sigri á Aston Villa í gærkvöldi.

„Það var mikilvægast að ná í stigin þrjú. Liðið vann vel fyrir þessum sigri sem ein heild og nú erum við bara að hugsa um næsta leik á móti Fulham,“ sagði Jesse Lingard í viðtali við BT Sport eftir leikinn.

„Liðið hefur tekið mér frábærlega og ég hef aðlagast hlutunum fljótt. Það hjálpaði líka til að sjá kunnugleg andlit,“ sagði Lingard.

„Við fundum þessa tengingu á æfingunum og tókst að búa hana til fljótt. Það er síðan frekar auðvelt að spila með þeim Michail [Antonio] og Declan [Rice],“ sagði Lingard.

„Ég fékk að byrja í kvöld, skoraði tvö mörk og við fengum þrjú stig. Ég var brosandi fyrir leikinn og á meðan leiknum stóð. Ég elska fótbolta,“ sagði Lingard.

Jesse Lingard hafði ekki fengið eina mínútu hjá Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en var fjórum sinnum ónotaður varamaður, síðast í leik á móti Aston Villa á Nýársdag.

„Þetta er búið að vera langur tíma en ég er kominn hingað til að fá spilatíma og náði að skora tvö mörkin. Stigin þrjú eru samt það mikilvægasta eins og ég sagði áður,“ sagði Lingard.

Lingard var reyndar að skora í öðrum deildarleiknum í röð því hann skoraði fyrir Manchester United á móti Leicester City í lokaumferðinni á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×