Enski boltinn

Gylfi skorar bara með fyrirliðabandið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu á móti Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í gær. Þetta var þriðja markið hans í síðustu níu leikjum í ensku úrvalsdeildinni.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu á móti Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í gær. Þetta var þriðja markið hans í síðustu níu leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Michael Regan

Gylfi Þór Sigurðsson var á skotskónum með Everton liðinu í gær þegar liðið vann 2-1 sigur á Leeds United í ensku úrvalsdeildinni.

Seamus Coleman sat á bekknum í gær og Gylfi Þór Sigurðsson var því með fyrirliðabandið í leiknum en það hefur oft boðað gott á þessu tímabili.

Gylfi var líka með fyrirliðabandið þegar hann skoraði sigurmarkið á móti Chelsea í desember og sigurmarkið á móit Sheffield United á öðrum degi jóla.

Gylfi var líka fyrirliði Everton í 3-0 sigri á Salford í enska deildabikarnum í september en þá skoraði hann fyrsta mark sitt á leiktíðinni.

Þetta var fjórða mark Gylfa með fyrirliðabandið á tímabilinu en öll mörkin hans hafa því komið sem fyrirliði Everton. Hann á enn eftir að skora á leiktíðinni þegar hann spilar sem óbreyttur leikmaður.

Allar stoðsendingar Gylfa nema ein hafa líka komið í leikjum sem Gylfi hefur leitt Everton liðið út á völlinn.

Gylfi hefur því komið að sjö mörkum í ellefu leikjum sem fyrirliði en aðeins einu marki í fjórtán leikjum þar sem hann hefur ekki verið með bandið.

Gylfi fékk reyndar fyrirliðabandið í þeim leik þegar Seamus Coleman fór meiddur af velli en var þá búinn að leggja upp mark fyrir Dominic Calvert-Lewin.

Gylfi með fyrirliðabandið hjá Everton 2020-21

  • 11 leikir
  • 4 mörk
  • 3 stoðsendingar

Gylfi ekki með fyrirliðabandið hjá Everton 2020-21

  • 14 leikir
  • 0 mörk
  • 1 stoðsending



Fleiri fréttir

Sjá meira


×