Enski boltinn

Klopp: Eina útskýringin sem ég sé núna er að við séum þrekað lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það lítur allt út fyrir það að Liverpool sé búið að klúðra titilvörninni eftir heimatöp á móti Burnley og Brighton.
Það lítur allt út fyrir það að Liverpool sé búið að klúðra titilvörninni eftir heimatöp á móti Burnley og Brighton. Getty/Andrew Powell/

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, talað um vöntun á ferskleika í sínu liði eftir tap á móti Brighton á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Liverpool er nú sjö stigum á eftir toppliði Manchester City þrátt fyrir að hafa spilað einum leik meira.

„Þetta hefur verið mjög erfið vika með tveimur útileikjum, leikjum þar sem var mikil ákefð,“ sagði Jürgen Klopp eftir leikinn.

„Við litum út fyrir það að vera ekki nógu ferskir í þessum leik, hvorki andlega né líkamlega,“ sagði Klopp.

„Það voru alltof mörg dæmi um það að við gáfum boltann frá okkur of auðveldlega og þá var eins og strákarnir væru andlega þreyttir. Ég veit að þeir geta vel sent boltann frá A til B en það gerðist ekki. Við gerðum þetta auðvelt fyrir Brighton en þeir stóðu sig líka vel,“ sagði Klopp sem viðurkenndi að úrslitin hafi ekki verið ósanngjörn.

„Brighton átti skilið að vinna, það er enginn vafi á því. Fyrir mig er mikilvægara að finna útskýringuna á því af hverju við töpuðum þessum leik og skilja betur hvað gerðist í kvöld. Við litum ekki sannfærandi út,“ sagði Klopp.

Liverpool lék 68 leiki í röð á Anfield án þess að tapa en hefur nú tapað tveimur heimaleikjum í röð og það á móti Burnley og Brighton.

„Eina útskýringin sem ég hef er að við séum þrekað lið þegar við horfum á andlega þáttinn og það leiðir til þess að menn hafa ekki fullan ferskleika í fótunum,“ sagði Klopp.

„Það eina sem við getum gert er að nota hlutina sem gerast og reyna að læra af þeim. Lausnin er alltaf hjá leikmönnunum. Þetta hefur verið erfið vika og við gerðum ekki nóg í kvöld. City er á miklu flugi og við þurfum að finna lausnir,“ sagði Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×