Enski boltinn

„Erum ekki í titil­bar­áttunni“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Robertson var hundsvekktur í leikslok.
Robertson var hundsvekktur í leikslok. Clive Brunskill/Getty Images

Andy Robertson, vinstri bakvörður Liverpool, segir að eins og sakir standa þá séu ensku meistararnir ekki í titilbaráttunni. Þetta sagði hann eftir 1-0 tap Liverpool gegn Brighton í kvöld en þetta var annað tap Liverpool í röð á heimavelli.

„Brighton var betra liðið. Þetta voru mikil vonbrigði yfir allan völlinn. Þú verður að gefa þeim hrós fyrir að spila vel. Þeir sköpuðu færi, pressuðu okkur og gerðu allt sem þeir vildu gera,“ sagði Robertson í samtali við fjölmiðla í leikslok.

„Við gerðum ekkert það sem við ætluðum að gera. Eftir langt tímabil án þess að tapa höfum við tapað tveimur í röð. Þegar þú mætir ekki þá nærðu ekki í nein úrslit. Við búum okkur undir hvern einasta leik á sinn hátt en þetta er ekki að smella.“

Það er skammt stórra högga á milli. Liverpool fær Manchester City í heimsókn á sunnudaginn en ensku meistararnir eru nú sjö stigum á eftir City, sem á einnig leik til góða.

„Við þurfum að finna leiðir til þess að ná í úrslit og sérstaklega á heimavelli. Þú getur gert allt á æfingum en allir leikir gegn Manchester City eru stórir. Eins og sakir standa þá erum við ekki í titilbaráttunni.“

„Við erum sjö stigum á eftir þeim og þeir eiga leik inni. Ég er viss um að þeir myndu segja það sama ef þeir væru tíu stigum á eftir okkur. Við þurfum að finna Liverpool liðið sem allir þekkja. Við erum enn gott lið, það breyttist ekki bara á einni nóttu,“ bætti Skotinn við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×