Innlent

Saumar ríkis­lög­reglu­stjóra, Berni­e Sanders og kórónu­veiruna

Sunna Sæmundsdóttir skrifar

Brúður í formi ríkislögreglustjóra, Bernie Sanders og kórónuveirukonan eru á meðal hundraða sköpunarverka Arndísar Sigurbjörnsdóttur

Um leið og stigið er fæti inn á heimili Arndísar er auðséð að þar hefur kona sem býr yfir mikilli sköpunargleði komið sér vel fyrir. Í hverjum krók og kima er handverk af einhverju tagi. Prjónaðar klukkur, saumuð ljós og síðast ekki síst; brúður í tuga- eða hundraðatali. Þær fanga oft tíðarandann líkt og covid-konan sem Arndís saumaði um páskana.

„Þá voru veirusmitin á mikilli uppleið og ég gerði þetta til að gleðja mig og gleyma tímanum,“ segir Arndís og sýnir brúðuna sem er með grímu, hanska og sprittbrúsa í vasa.

Arndís ímyndar sér að andi kórónuveirunnar líti nokkurn veginn svona út. vísir/Egill

Kórónuveiran í dúkkulíki er þó heldur ófrýnilegri og líkist helst leðurblöku. 

Dúkkurnar og verkin eru fjölbreytt og nokkur bera sterk skilaboð, eins og útsaumuðar myndir með vísan í George Floyd, Fokk ofbeldi og Black Lives matter.

Útsaumaðar myndir eftir Arndísi.vísir/Egill

Hún endurnýtir efni úr ýmsum áttum og kvenlæg orka einkennir brúðusafnið. Þegar Arndís saumaði ríkislögreglustjóra leyfði hún þó eiginmanninum hennar að fylgja með og þá fangaði Bernie Sanders athygli hennar á innsetningarathöfn forseta Bandaríkjanna.

„Það voru allir uppstrílaðar þarna í kringum nýja forsetann en svo kemur hann þarna afslappaður með eins og íslenska lopavettlinga.“

Arndís segir þessa brúðu vera íslensku konuna. Með bónuspoka í höndum.vísir/Egill

Henni segist aldrei leiðast með þetta áhugamál. Hún dregur innblástur úr ýmsum áttum en næsta verk er óákveðið.

„Það kemur bara til mín. Þá útfæri ég þetta í huganum fyrst og svo er ég ekki lengi að vinna það.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.