Innlent

Of snemmt að segja til um hvort hafa þurfi áhyggjur

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir segir málið í hæsta forgangi. 
Sigríður Björk Guðjónsdóttir segir málið í hæsta forgangi.  Vísir/Vilhelm

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir að frekari upplýsingar þurfi að liggja fyrir áður en ákvarðanir um hertar öryggisráðstafanir verða teknar, í kjölfar skotárásarinnar á bíl borgarstjóra og húsnæði stjórnmálaflokkanna. Hún segir of snemmt að segja til um hvort hafa þurfi áhyggjur.

„Það er of snemmt að segja til um það. Það er fyllsta ástæða til að setja það á borðið núna, að taka upp þessar umræður, setja þessi mál í forgang og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með þetta mál í forgangi eins og yfirlögregluþjónn lýsti í dag og við að sjálfsögðu fylgjumst með og aðstoðum eins og þarf. Þannig að það er alveg ljóst að umræðan þarf að fara fram,“ segir Sigríður Björk í samtali við fréttastofu.

Líkt og greint hefur verið frá var karlmaður á sextugsaldri var úrskurðaður í gæsluvarðhald síðdegis vegna gruns um aðild að skotárásinni á bíl borgarstjóra um síðastliðna helgi. Annar maður um fertugt var handtekinn um miðja viku en á heimili hans fannst talsvert magn skotvopna, þar af tveir tuttugu og tveggja kalíbera rifflar en talið er að slíku vopni hafi verið beitt á bíl borgarstjóra síðasta laugardag og á skrifstofur Samfylkingarinnar í síðustu viku.

Stjórnmálaflokkarnir átta á Alþingi sendu ríkislögreglustjóra bréf í vikunni og óskuðu eftir fundi til að fara yfir öryggisráðstafanir. Í bréfinu er farið fram á að gerðar verði öryggisúttektir á skrifstofum flokkanna með tillögum til úrbóta, að komið verði fyrir öryggishnappi og að húsnæði flokkanna verði bætt í reglubundna vöktun lögreglu. Fundurinn verður haldinn á þriðjudag. Sigríður segir engar ákvarðanir hafa verið teknar en að eðlilegt sé að málin séu rædd.

„Það er allavega tilefni til að taka umræðuna. Væntanlega verða ekki ákvarðanir teknar fyrr en við vitum hvað rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu leiðir í ljós, nákvæmlega hvað var að gerast, hverjir standa að baki. Er þetta einstaklingur eða er þetta hópur. Við þurfum að vita meira um málið til að geta metið hvort það þurfi að herða öryggisráðstafanir. En samtalið er byrjað og það er mjög jákvætt skref.“

Komið hefur til tals hjá stjórnmálaflokkunum að óska eftir því að yfirvöld setji upp eftirlitsmyndavélar á skrifstofum þeirra. Sigríður segir það verða eitt af því sem verði rætt og skoðað á fundinum.

„Það er náttúrlega lögreglumaður á þinginu sjálfu, það má ekki gleyma því. Og í tveimur af ráðuneytunum er lögregla með öryggisgæslu. Þannig að við munum skoða þetta út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir á hverjum tíma og taka ákvarðanir samkvæmt því.“

Getur dregið úr viljanum til að taka erfiðar umræður

Aðspurð segir hún engar breytingar fyrirhugaðar á vopnaburði lögreglu. „Nei, ekkert slíkt. Við erum á nákvæmlega sama viðbúnaðarstigi og við vorum,“ segir hún.

„Það sem hins vegar er slæmt í þessu máli, sérstaklega, er þegar árásin er gerð við heimili fólks sem er í stjórnmálum. Það er eitthvað sem er mjög slæmt og hættulegt. Við sjáum það til dæmis að þessi umræða sem hefur verið hjá kollegum okkar á Norðurlöndum og þar hefur verið umræða um að þetta geti jafnvel dregið úr vilja stjórnmálafólks til að taka erfiðar umræður út af hótunum og jafnvel og ógnandi tilburðum í kjölfarið,“ segir Sigríður Björk.


Tengdar fréttir

Tveir verið handteknir í kjölfar skotárásarinnar

Tveir karlmenn hafa verið handteknir í tengslum við skotárásina á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Sá fyrri var handtekinn um miðja viku en á heimili hans fannst töluvert magn skotvopna, líkt og fréttastofa greindi frá í dag. Sá síðari er á fimmtugsaldri og var handtekinn í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×