Innlent

Sextán ára fangelsi fyrir morð í Úlfarsárdal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leimontas leiddur inn í lögreglubíl þegar hann var færður í gæsluvarðhald.
Leimontas leiddur inn í lögreglubíl þegar hann var færður í gæsluvarðhald. Vísir/Vilhelm

Arturas Leimontas, Lithái á sextugsaldri, hefur verið dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir að hafa banað landa sínum á sextugsaldri í Úlfarsárdal þann 8. desember 2019. Leimontas var sakfelldur fyrir að hafa hrint manninum fram af svölum á þriðju hæð fjölbýlishúss við Skyggnisbraut í Grafarholti.

Fimm voru handteknir í tengslum við málið en einn þeirra, sem nú hefur verið ákærður, var í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Leimontas neitaði sök en í ákærunni var hann sagður hafa „á svölum íbúðarinnar, slegið [manninn] hnefahöggum og sparkað í líkama hans og höfuð auk þess að slá hann þungu höggi í höfuðið með óþekktu áhaldi og í kjölfarið kastað honum fram af svölunum þannig að [maðurinn] féll 6,96 metra niður á steypta stétt og lést skömmu síðar af áverkum sem hann hlaut á heila, brjóstkassa og brjóstholslíffærum“.

Fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins að Arnar Kormákur Friðriksson, verjandi Leimontas, ætli að áfrýja niðurstöðu dómsins til Landsréttar.


Tengdar fréttir

Áfram í farbanni vegna dauðsfalls í Úlfarsárdal

Landsréttur staðfesti að karlmaður um fimmtugt skuli áfram sæti farbanni fram í júní í tengslum við rannsókn á mannsláti í Úlfarsárdal í desember. Maðurinn er grunaður um að hafa valdið dauða manns sem féll þá fram af svölum á þriðju hæð fjölbýlishúss.

Kærir gæslu­varð­halds­úr­skurð vegna and­látsins í Úlf­árs­ár­dal

Maðurinn sem er grunaður um að hafa átt þátt í dauðsfalli manns í Úlfársárdal síðasta sunnudag hefur kært gæsluvarðhaldsúrskurð yfir sér til Landsréttar. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir honum á mánudag eftir að maður á sextugsaldri lést af sárum sínum þegar hann féll af svölum fjölbýlishúss

Íbúar í Úlfarsárdal harmi slegnir vegna andlátsins

Karlmaður um fimmtugt var í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að eiga aðild að andláti manns sem féll fram af svölum fjölbýlishúss í Úlfarsárdal í gær. Fjórum öðrum, sem handteknir voru í tengslum við málið, hefur verið sleppt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×