Enski boltinn

Martial sakaður um leti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Martial átti ekki góðan leik gegn Sheffield United.
Anthony Martial átti ekki góðan leik gegn Sheffield United. getty/Laurence Griffiths

Rio Ferdinand sakaði Anthony Martial, leikmann Manchester United, um leti í öðru markinu sem liðið fékk á sig í tapinu óvænta fyrir Sheffield United, 1-2, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Oliver Burke skoraði sigurmark Sheffield United á 74. mínútu. Martial tapaði boltanum í aðdraganda marksins og Ferdinand hafði eitt og annað við framlag hans og varnarleik United í markinu að athuga.

„Þetta snýst allt um að sýna viðbrögð. Ég vil sjá hann spretta til baka. Hann var á skokkinu. Áður fyrr gerðist þetta ekki. Menn hlupu til baka. Það eru komnar tvær til þrjár sendingar og Martial er enn að skokka til baka. Ég vil sjá ákefð og það sama á við [Nemanja] Matic,“ sagði Ferdinand á BT Sport í gær.

„Þetta er ekki bara um Martial. Ég gæti talið upp fleiri. [David] de Gea ætti að hreinsa boltann upp í stúku og Matic ætti að setja pressu á [John] Lundstram. Sýndi mér viðbrögð og ákefð. Hann er með hendur fyrir aftan bak sem ég hata. Martial, fyrir alla muni hlauptu í átt að honum og truflaðu hann. Hann gerði það ekki.“

United hefði getað endurheimt toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar með sigri í gær en þess í stað tapaði liðið sínum fjórða deildarleik á heimavelli á tímabilinu. United er einu stigi á eftir toppliði Manchester City sem á leik til góða.

Þetta var aðeins annar sigur Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í vetur og sá fyrsti á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×