Innlent

Óttast að krapastífla sé á fleiri stöðum í Jökulsá

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Verkstjóri Vegagerðarinnar óttast að stíflur hafi myndast á fleiri stöðum í Jökulsá.
Verkstjóri Vegagerðarinnar óttast að stíflur hafi myndast á fleiri stöðum í Jökulsá. Lögreglan á Norðurlandi eystra

Verkstjóri á Húsavík sem staddur er við Krapastífluna við Jökulsá á Fjöllum óttast að fleiri krapastíflur séu í ánni. Lögreglan á Norðurlandi eystra er á leiðinni með dróna til að ná betri yfirsýn.

Hann segir útlitið ekki gott, það eina sem hann sjái sé krapi svo langt sem augað eygir.

Í gær þurfti að loka þjóðvegi 1 við brúna við Jökulsá á fjöllum á milli Mývatns og Egilsstaða vegna krapastíflu sem flæddi yfir veginn. 

Búið er að opna veginn við Jökulsá og verður umferð um veginn undir eftirliti þar til dimmir eða um 18.00 en þá verður veginum aftur lokað í varúðarskyni.

Brynjar Ástþórsson, verkstjóri Vegagerðarinnar á Húsavík er staddur við Jökulsá og segir útlitið hreint ekki gott.

„Þetta lítur alls ekkert spennandi út, það er kominn krapi út um allt; upp á bakka og svona. Það er svona hundrað metra kafli frá brú sem þurfti að ryðja út í gær þannig að fólk kæmist á milli sem var komið að brúnni þegar flóðið fór. Það er boði hérna sem notaður er fyrir vatnsmælingar og hann er á hliðinni hérna og það heyrist ekki í rennsli eða neinu. Við sjáum ekki ofan í ána.“

Óttast er að krapastífla hafi myndast á fleiri stöðum í Jökulsá.

„Það er mjög líklegt að það sé einhver krapastífla þarna ofan við sem veldur því að það er ekkert rennsli hérna niður frá og svo í gær kom annað flóð hérna ofan við þannig að það er mjög líklegt að það sé einhver stífla fyrir neðan líka.“

Lögreglan á Norðurlandi eystra er á leiðinni á vettvang og hún er með dróna meðferðis til að öðlast nánari yfirsýn yfir stöðuna því eins og er sér Brynjar ekkert nema krapa.

„Það er frostþoka hérna þannig að það sést ekki langt en það sem við sjáum er bara krapi,“ sagði Brynjar Ástþórsson, verkstjóri Vegagerðarinnar á Húsavík. 


Tengdar fréttir

Krapaflóðið lokar enn hringveginum

Hringvegurinn milli Mývatns og Egilsstaða er enn lokaður þar sem krapastífla flæðir yfir veginn við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum.

Þriggja metra djúpur „krapahaugur“ lokar þjóðveginum

Krapastífla flæðir nú yfir þjóðveg 1 við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum. Vegurinn milli Mývatns og Egillstaða er lokaður af þessum sökum. Lögregla segir „krapahauginn“ einna líkastan snjóflóði; hann sé um þriggja metra djúpur og nái yfir um 200 metra vegkafla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×