Innlent

Þriggja metra djúpur „krapahaugur“ lokar þjóðveginum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi á Mývatnsöræfum í dag.
Frá vettvangi á Mývatnsöræfum í dag. Lögreglan

Krapastífla flæðir nú yfir þjóðveg 1 við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum. Vegurinn milli Mývatns og Egillstaða er lokaður af þessum sökum. Lögregla segir „krapahauginn“ einna líkastan snjóflóði; hann sé um þriggja metra djúpur og nái yfir um 200 metra vegkafla.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu á Norðurlandi eystra að lögreglumenn séu nú á vettvangi á Mývatnsöræfum vegna flóðsins, sem varð vestan Jökulsár á Fjöllum við Grímsstaði. Áin hafi flætt yfir veg vestan við brúna „og skilið eftir sig gríðarlegt magn af krapa og íshröngli.“

„Krapahaugur þessi er einna líkastur snjóflóði, um 3ja metra djúpur og nær yfir um 200 m. af veginum,“ segir í tilkynningu lögreglu. 

Hringveginum frá Kröfluafleggjara í vestri og Vopnafjarðarafleggjara í austri hefur verið lokað af þessum sökum. Vegagerðin bendir á hjáleið um veg 85 við norðausturströndina. 

Moksturstæki eru nú á leið á vettvang úr byggð og munu hefjast handa mokstur síðar í kvöld. Lögregla segir ljóst að langan tíma muni taka að opna veginn á ný. Þá sé ekki vitað um ástand hans undir krapahaugnum. Áin sjálf virðist þó hafa rutt sig og vatnssöfnun ekki í gangi á svæðinu eins og er. 

Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði er merkt inn á meðfylgjandi kort.

Talið er að krapaflóðið hafi hlaðist upp síðdegis í dag, upp úr klukkan 15. Lögregla vísar í gögn Veðurstofunnar, þar sem fram kemur að vatnshæð árinnar hafi náð hámarki um miðjan dag í dag og svo snarfallið aftur. Lögregla á Norðurlandi eystra, Vegagerðin og Veðurstofan munu fylgjast með gangi mála. 

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×