Erlent

John­son segist al­gjör­lega miður sín

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Boris Johnson á blaðamannafundi í Downing-stræti 10 í dag.
Boris Johnson á blaðamannafundi í Downing-stræti 10 í dag. Getty

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands segist bera alla ábyrgð á aðgerðum ríkisstjórnar sinnar gegn kórónuveirufaraldrinum í landinu. Stjórnvöld hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð í glímunni við faraldurinn.

Johnson ávarpaði þjóð sína á blaðamannafundi á erfiðum tímamótum í dag. Yfir hundrað þúsund manns hafa nú látist úr Covid-19 í Bretlandi eftir að opinberar tölur voru uppfærðar síðdegis.

Johnson sagði á blaðamannafundinum að erfitt væri að ná utan um sorgina sem felist í „vægðarlausri tölfræðinni“. Hann vottaði aðstandendum þeirra sem hafa látist samúð sína.

„Við gerðum allt sem við gátum,“ sagði Johnson. „Ég er miður mín vegna allra sem hafa látist og, að sjálfsögðu, ber ég sem forsætisráðherra alla ábyrgð á öllu sem ríkisstjórnin hefur gert.“

Hér fyrir neðan má sjá upptöku af rafrænum blaðamannafundi forsætisráðherrans í dag.

Bretland varð í dag fimmta ríki heims þar sem meira en hundrað þúsund hafa látist vegna Covid-19. Áður höfðu yfir hundrað þúsund látist í Bandaríkjunum, Brasilíu, Indlandi og Mexíkó. Bretland er langfámennasta ríkið á þessum lista.

Strangar reglur eru nú í gildi vegna veirunnar í Bretlandi. Johnson kvaðst myndu fara nánar út í mögulegar tilslakanir á næstu dögum og vikum.


Tengdar fréttir

Hundrað þúsund dánir í Bretlandi

Rúmlega hundrað þúsund manns hafa nú dáið vegna Covid-19 í Bretlandi. Það er samkvæmt opinberum tölum en um 3,7 milljónir manna hafa smitast af nýju kórónuveirunni, sem veldur Covid-19.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.