Lampard var látinn taka pokann sinn hjá Chelsea í gær og fastlega er búist við því að Tuchel taki við liðinu. Hann var síðast stjóri Paris Saint-Germain.
Neville segir að Tuchel muni ekki fá mikinn tíma hjá Chelsea, ekki frekar en aðrir stjórar liðsins.
„Tuchel mun lenda í því sama og Frank og við munum segja það sama um hann eftir eitt og hálft til tvö ár,“ sagði Neville.
Hann kveðst ekki hafa áhyggjur af Lampard og framtíð hans sem stjóra. „Þetta er Chelsea. Frank varð fyrir barðinu á þessari tilhneigingu Chelsea að skipta um stjóra á eins og hálfs til tveggja ára fresti ef hlutirnir ganga ekki eins og þeir vilja. Ég hef ekki miklar áhyggjur af ferli Franks.“
Chelsea er í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Wolves á morgun.