Innlent

Eiga von á því að húsið verði rifið að hluta á morgun

Sylvía Hall skrifar
Frá aðgerðum slökkviliðs í morgun.
Frá aðgerðum slökkviliðs í morgun. Vísir/Vilhelm

Slökkvistarfi við Kaldasel í Seljahverfi í Breiðholti lauk nú á ellefta tímanum í kvöld. Mikill eldur kom upp í þaki hússins fyrr í kvöld, en þar hafði eldur komið upp í morgun og altjón orðið.

Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir líklegt að eldurinn í kvöld hafi kviknað í efni sem hafi náð að þorna smám saman. Þá hafi orðið svokölluð endurtendrun, en það gerist oft þegar hitinn er mikill.

„Það er fyrsta sem manni grunar þegar hafa verið svona stórir brunar og mikill eldsmatur. Þegar efnið er þykkt og mikið vill oft kveikna í þessu aftur eftir einhvern tíma,“ segir Sigurjón í samtali við Vísi.

Hér að neðan má sjá myndband af vettvangi í kvöld.

Hann segir slökkvistarf hafa gengið ágætlega þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

„Þetta var mikill eldur, erfitt að komast að og erfitt að slökkva í þessu því húsið var orðið það lélegt og mikið skemmt,“ segir Sigurjón. Hann telur sennilegt að húsið sé ónýtt en nú sé málið komið í hendur tryggingafélaga.

„Við eigum von á því að þetta verði að hluta til rifið á morgun.“


Tengdar fréttir

Aftur logar í þaki hússins við Kaldasel

Eldur er aftur kominn upp í þaki hússins sem varð alelda í morgun. Húsið er í Kaldaseli í Seljahverfi í Breiðholti, en mikill eldur kom upp í húsinu í morgun og varð altjón eftir brunann.

Íbúinn útskrifaður af slysadeild

Altjón varð þegar eldur kom upp í einbýlishúsi við Kaldasel snemma í morgun. Varðstjóri telur að eldurinn hafi verið búinn að malla lengi því efri hluti hússins hafi verið nánast alelda. Einn íbúi var fluttur á slysadeild með reykeitrun. Hann hefur verið útskrifaður.

„Húsið var í rauninni alelda þegar við komum“

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnir nú útkalli í Seljahverfi í Breiðholti þar sem einbýlishús í Kaldaseli varð alelda í morgun. Altjón virðist hafa orðið í brunanum. Um er að ræða 240 fermetra einbýlishús.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×