Erlent

Fellir úr gildi bann við transfólki í Banda­ríkja­her

Sylvía Hall skrifar
Joe Biden vinnur nú hörðum höndum að því að gefa út forsetatilskipanir.
Joe Biden vinnur nú hörðum höndum að því að gefa út forsetatilskipanir. Getty/Alex Wong

Trans fólk fær nú aftur að gegna herþjónustu í Bandaríkjunum eftir að Joe Biden Bandaríkjaforseti felldi úr gildi bann sem Donald Trump tilkynnti sumarið 2017. Hvíta húsið greindi frá þessu í dag og sagði styrkleika þjóðarinnar felast í fjölbreytileikanum.

Bannið tók gildi í apríl árið 2019, en á þeim tíma gegndu 8.980 trans einstaklingar herþjónustu. Aðeins þeir sem voru nú þegar í herþjónustu fengu að halda áfram, en lokað var fyrir nýskráningar trans fólks í herinn.

Bannið var gagnrýnt af Lloyd Austin, nýjum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, fyrr í vikunni. Að hans mati ættu allir þeir sem uppfylltu hæfisskilyrði að mega skrá sig í herinn.

Trump tilkynnti bannið upphaflega í röð tísta sem hann birti á Twitter-reikningi sínum. Sagði hann herinn hvorki samþykkja né leyfa trans fólki að vera í hernum þar sem það hefði í för með sér „stórkostlegan lækniskostnað og truflanir“.

Biden hafði margoft lýst því yfir að hann hygðist fella bannið úr gildi og fyrr í vikunni greindi starfsmannastjóri hans frá því að fyrsta vikan færi í að leiðrétta hlut minnihlutahópa og annarra sem höfðu átt undir högg að sækja undanfarin ár.


Tengdar fréttir

Biden þegar byrjaður að snúa við ákvörðunum Trumps

Joe Biden skrifaði undir sínar fyrstu forsetatilskipanir í dag, fljótlega eftir að hann steig í fyrsta sinn inn á skrifstofu forseta í Hvíta húsinu eftir að hafa tekið við embætti forseta. Hann sagði tilskipanirnar vera „djarfar“ og að þær snúist um að uppfylla loforð hans gagnvart Bandarísku þjóðinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×