Innlent

Fólkið á Grund bólusett og takmarkanir minnkaðar í næstu viku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hjúkrunarheimilið Grund við Hringbraut.
Hjúkrunarheimilið Grund við Hringbraut. Vísir/Vilhelm

Bólusetningu heimilismanna Grundarheimilanna lauk fyrir helgi. Frá og með 1. febrúar verður hægt að minnka þær takmarkanir sem verið hafa á heimsóknum aðstandenda til heimilismanna. Þó er ekki reiknað með eðlilegu ástandi fyrr en í fyrsta lagi í byrjun sumars.

Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, segir í pistli á heimasíðu heimilanna að breytingarnar verði kynntar í lok vikunnar. Tíu dagar þurfi að líða frá síðari bólusetningasprautunni.

„Ekki verður hægt að hafa allt eins og áður var, því eftir er að bólusetja starfsfólkið. Vonandi verður það gert í apríl eða maí mánuði og þannig fáum við eðlilegt líf á heimilin okkar þrjú í byrjun sumars,“ segir Gísli Páll.

Hann hrósar heilbrigðisráðherra fyrir „fumlaus og markviss“ vinnubrögð í nánu samstarfi við Evrópusambandið sem hafi tryggt Íslandi yfir milljón skammta af bóluefni sem dugi til að bólusetja rúmlega alla þjóðina. Aðeins liggur fyrir um dreifingu á bóluefni fyrir þrjátíu þúsund manns á fyrsta ársfjórðungi.

Gísli Páll beinir í pistlinum spjótum sínum að Þjóðverjum.

„Talandi um Evrópusambandið, þá las ég það í fréttum um daginn að allar þær þjóðir sem ættu aðild að því innkaupafyrirkomulagi sem hjá þeim/okkur gildir, mættu ekki reyna að útvega sér bóluefni fram hjá því samkomulagi,“ segir Gísli.

„Svo sér maður einnig í fréttum að Þjóðverjar, sem ku vera nokkuð stór þjóð innan Evrópusambandsins og dulítið í forystu þess, hafi engu að síður gert slíka framhjásamninga og tryggt sér bóluefni umfram það sem Evrópusambandið var búið að semja um. Hvurslags græðgi er þetta eiginlega. Svei þeim.“

Hann vonar að litlar sem engar takmarkanir verði á heimsóknum til heimilismanna í sumar. Það verði nú munur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×