Erlent

Ráð­herra sem mælti með sírópi gegn veirunni smitaður

Sylvía Hall skrifar
Heilbrigðisráðherrann Pavithra Wanniarachchi sést hér til vinstri.
Heilbrigðisráðherrann Pavithra Wanniarachchi sést hér til vinstri. EPA/CHAMILA KARUNARATHNE

Pavithra Wanniarachchi, heilbrigðisráðherra Sri Lanka, hefur greint með kórónuveiruna. Ráðherrann greindist í gær og er sá fjórði í núverandi ríkisstjórn til að greinast.

Wanniarachchi hafði áður mælt með tilteknu sírópi sem vörn gegn veirunni. Sírópið, sem framleitt er af seiðkarli, var sagt vera „lífstíðarvörn gegn veirunni“ og hafði ráðherrann bæði mælt með því á opinberum vettvangi og innbyrt það sömuleiðis.

Seiðkarlinn sem framleiðir sírópið hefur fullyrt að uppskriftin hafi komið til hans í draumi, en það inniheldur meðal annars hunang og negul. Læknar voru fljótir til að gagnrýna sírópið en þrátt fyrir það hafa þúsundir ferðast til þorps í Sri Lanka til þess eins að komast yfir skammt, að því er fram kemur í frétt AFP.

Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar staðfesti í gær að Wanniarachchi hefði reynst smituð í tveimur sýnatökum sem hún fór í. Hún er nú í einangrun og allir sem hún hefur umgengist hafa verið sendir í sóttkví.

Alls hafa 56.076 greinst með kórónuveiruna á Sri Lanka frá því að faraldurinn hófst og hafa þar af 276 látist.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×