Erlent

Tókst að fá samband við Trump um borð í Air Force One með því að þykjast vera Piers Morgan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump og Morgan kom ágætlega saman í eina tíð en á lokum gekk forsetinn fyrrverandi fram af sjónvarpsmanninum.
Trump og Morgan kom ágætlega saman í eina tíð en á lokum gekk forsetinn fyrrverandi fram af sjónvarpsmanninum.

Óprúttnum aðilum tókst að fá samband við Donald Trump, þáverandi forseta Bandaríkjanna, í október síðastliðnum með því að þykjast vera sjónvarpsmaðurinn umdeildi Piers Morgan.

Forsetinn var um borð í forsetaflugvélinni Air Force One þegar símtalið átti sér stað.

Það var Morgan sem greindi frá atvikinu í viðtali við hlaðvarp BBC America en svikin komust ekki upp fyrr en að Trump hafði samband við Morgan daginn eftir hrekkinn.

Ekki er vitað hver það var sem gabbaði Trump og þá liggur ekki fyrir hvernig viðkomandi tókst að komast í kringum þær öryggisráðstafanir sem eiga að vera til staðar til að hver sem er geti ekki náð í forsetann.

„Þeir áttu samtal, þar sem Trump hélt hann væri að tala við mig,“ sagði Morgan við Jon Sopel hjá BBC. Miðillinn hefur sent inn fyrirspurn til stjórnvalda vegna málsins.

Morgan er frægur fyrir umdeildar skoðanir og athugasemdir. Hann var eitt sinn ritstjóri News of the World og stjórnaði síðar þættinum Piers Morgan Live á CNN en er nú annar stjórnenda morgunþáttarins Good Morning Britain.

Hann var dyggur stuðningsmaður Donald Trump í eina tíð en síðarnefndi virtist ganga fram af honum undir lok kjörtímabils síns. Sagði Morgan meðal annars um Trump að sjálfselska hans og þrá til að láta allt snúast um sjálfan sig gerðu hann að „gagnslausum leiðtoga“.

„Mér leið bara.. nei, nú er ég kominn með nóg af þér,“ sagði hann um vinaslit sín og Trump.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×