Enski boltinn

Hlutirnir hafa algjörlega snúist við hjá United og Liverpool á 80 dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes með boltann í leik Manchester United og Liverpool á dögunum en Liverpool mennirnir  Georginio Wijnaldum og Sadio Mane eru til varnar.
Bruno Fernandes með boltann í leik Manchester United og Liverpool á dögunum en Liverpool mennirnir  Georginio Wijnaldum og Sadio Mane eru til varnar. Getty/ Michael Regan

Phileas Fogg ætlaði að fara í kringum jörðina á 80 dögum í heimsfrægri sögu Jules Verne en einmitt á þeim tíma hefur staða erkifjendanna Manchester United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni snúist alveg við.

Manchester United, sem endaði síðasta tímabil 33 stigum á eftir Englandsmeisturum Liverpool, situr nú í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar. Í raun hefur staðan gjörbreyst á síðustu rúmu tveimur mánuðum því það var ekki eins og United liðið væri að gera frábæra hluti framan af tímabilinu.

Tap Liverpool á móti Burnley í gær þýðir það hins vegar að Liverpool menn eru sex stigum á eftir United og þar með sex stigum frá efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar þar sem þeir eyddu nær öllu síðasta tímabili.

Titilbaráttan lítur ekki vel út hjá Liverpool og í raun þurfa menn á Anfield nú að fara áhyggjur af því að liðið skili sér inn í Meistaradeildarsæti.

2. nóvember síðastliðinn þá endaði Liverpool umferðina á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, einu stigi á undan Leicester City og heilum sex stigum á undan Manchester United. Liverpool var þá með sextán stig út úr sjö leikjum, hafði unnið fimm leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum leik.

Manchester United var að sama skapi í þrettánda sæti deildarinnar með tíu stig eða sex stigum færra en Liverpool. United hafði þá tapað jafnmörgum leikjum (3) og liðið hafði unnið (3) og markatalan var þrjú mörk í mínus.

Eftir leikinn á Anfield í gærkvöldi þá situr Manchester United á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 40 stig í 19 leikjum og tveggja stiga forskot á nágranna sinna í Manchester City sem eiga reyndar einn leik inni. Liverpool er aftur á móti í fjórða sæti deildarinnar sex stigum á eftir Manchester United.

Hlutirnir hafa algjörlega snúist við á milli þessar sigursælustu liða enska boltans. Sex stiga forskot Liverpool er nú sex stiga forskot Manchester United.

Liverpool hefur aðeins fengið þrjú stig út úr síðustu fimm leikjum sínum og á enn eftir að skora deildarmark á árinu 2021. Manchetser United hefur aftur á móti unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og náði í þrettán stig af fimmtán mögulegum í þeim. Einu stigin sem töpuðust voru í markalausa jafnteflinu á móti Liverpool.

Manchester United hefur frá síðasta sigri Liverpool liðsins því náð í tíu fleiri stig en erkifjendur þeirra út Bítlaborginni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.