Erlent

Átján af 27 íbúum hjúkrunarheimilis létust af völdum Covid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í mörgum tilvikum þróuðust veikindin mjög hratt.
Í mörgum tilvikum þróuðust veikindin mjög hratt. Unsplash/Cristian Newman

Átján af 27 íbúum hjúkrunarheimilis í Lincoln-skíri á Bretlandseyjum létust af völdum Covid-19 í aðdraganda jóla. Flestir voru á tíræðisaldri en sá yngsti var 79 ára og sá elsti 99 ára.

Samkvæmt Guardian bar sum dauðsfallanna svo brátt að, að starfsmönnum gafst ekki ráðrúm til að veita sjúklingum líknarhjálp eða gera aðstandendum kleift að kveðja.

Hópsmitið á Old Hall hjúkrunarheimilinu í Halton Holegate kom fyrst upp 16. nóvember og stóð yfir í um sex vikur.

„Allir íbúarnir 27 greindust á sama tíma og tuttugu af 28 starfsmönnum. Þetta var hræðilegt; við misstum átján íbúa,“ segir framkvæmdastjórinn Diane Vale.  Tveir starfsmannanna veiktust svo illa að þeir voru lagðir inn á sjúkrahús og annar er enn í veikindaleyfi.

Ráðstafanir á hjúkrunarheimilinu með tillit til Covid-19 voru metnar góðar í lok nóvember en þá hafði hluti starfsmanna flutt inn til að draga úr smithættu.

31 prósent allra dauðsfalla vegna Covid-19

Dauðsföllum á hjúkrunarheimilum í Englandi fjölgaði um nærri þriðjung á þremur vikum fyrir 10. janúar en Guardian sagði frá því fyrr í mánuðinum að þrettán af 27 íbúum Edendale Lodge hjúkrunarheimilisins í Austur-Sussex hefðu látist frá 13. desember.

23.916 íbúar hjúkrunarheimila á Bretlandseyjum höfðu látist sökum Covid-19 hinn 1. janúar síðastliðinn. Um er að ræða bæði staðfestar greiningar og tilvik þar sem grunur leikur á um smit.

Um er að ræða 31 prósent allra dauðsfalla vegna Covid-19.

Að sögn Vale var ekki hægt að greina það á einkennum að faraldur væri að brjótast út á heimilinu; enginn hiti eða viðvarandi hósti. Hún segir harmleikinn hafa komið afar illa við starfsfólkið, bæði tilfinningalega og andlega.

Í mörgum tilvikum þróuðust veikindin mjög hratt.

„Við töluðum við lækna dags daglega en í mörgum tilvikum voru engin merki um að andlát væri yfirvofandi. Einn kona át fulla skál af graut í morgunmat, át hádegismat og dó svo daginn eftir. Sum dauðsfallanna bar enn hraðar að.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×