Erlent

Fox krafðist þagnar um sáttina fram yfir kosningar

Samúel Karl Ólason skrifar
Entertainment & Tourism Industries In New York City Struggle Under Pandemic Restrictions
Getty/Alexi Rosenfeld

Forsvarsmenn Fox News gerðu það að skilyrði sáttar þeirra við foreldra Seth Rich, sem var myrtur árið 2016, að ekki mætti segja frá sáttinni fyrr en eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember.

Seth Rich, sem starfaði hjá Landsnefnd Demókrataflokksins, var skotinn til bana í júlí 2016 nærri heimili hans í Washington. Morðið er enn óleyst en lögreglan telur að um misheppnaða ránstilraun hafi verið að ræða.

Fjölmargar samsæriskenningar voru mótaðar í kringum morð hans og þar á meðal sú kenning að hann hafi lekið tölvupóstum úr tölvukerfi Landsnefndarinnar til Wikileaks. Meðal annars fjallaði Sean Hannity, einn þáttastjórnenda Fox, ítrekað um þessa samsæriskenningu.

Tölvuþrjótar á vegum leyniþjónustu herafla Rússlands, GRU, stálu tölvupóstunum úr tölvukerfi Landsnefndarinnar, samkvæmt sérfræðingum sem hafa rannsakað málið og leyniþjónustusamfélagi Bandaríkjanna.

Fréttin var að endingu tekin úr birtingu en foreldrar Rich höfðuð mál gegn Fox News vegna hennar og umfjöllunar Hannity og annarra þula stöðvarinnar. Í nóvember varð svo opinbert að forsvarsmenn miðilsins gerðu dómsátt við foreldrana.

Það var gert skömmu áður en Sean Hannity og Lou Dobbs áttu að bera vitni í málinu.

Í umfjöllun New York Times um sáttina segir að hún hafi verið sérstaklega há og með því að greiða meira hafi miðillinn komist hjá því að birta afsökunarbeiðni á vef Fox News. Þar segir einnig að í sáttinni hafi verið skilyrði um að ekki mætti opinbera tilvist hennar fyrr en eftir forsetakosningarnar sem fóru fram þann 3. nóvember.

Blaðamaður NYT segir það skilyrði til marks um þá tenginu sem Fox hafi við áróðursvél Donalds Trump, fráfarandi forseta, og að forsvarsmenn stöðvarinnar hafi óttast að reita hann til reiði fyrir kosningarnar.

Aaron Rich, bróðir Seth, höfðaði einnig mál gegn mönnum sem fóru mikinn á netinu í kringum samsæriskenningar um Seth Rich og þeir báðust báðir formlega afsökunar í síðustu viku. Auk þess drógu þeir yfirlýsingar sínar um morðið til baka.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.