Enski boltinn

Þrír leikmenn Man Utd komast í sameiginlegt lið Carragher

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mynd frá 1999. Jamie Carragher reynir að verjast skoti frá Ole Gunnar Solskjær, núverandi stjóra Man Utd.
Mynd frá 1999. Jamie Carragher reynir að verjast skoti frá Ole Gunnar Solskjær, núverandi stjóra Man Utd. vísir/Getty

Stærsti leikur tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni fer fram á Anfield í dag þar sem Englandsmeistarar Liverpool fá topplið ensku úrvalsdeildarinnar, Manchester United í heimsókn.

Um er að ræða tvö sigursælustu félög enskrar knattspyrnu og hafa þessi nágrannafélög marga hildina háð í gegnum áratugina.

Liverpool goðsögnin Jamie Carragher setti saman ellefu manna byrjunarlið skipað leikmönnum úr báðum liðum en aðeins komast þrír leikmenn toppliðsins í það sem Carragher telur sterkasta sameiginlega lið Man Utd og Liverpool um þessar mundir.

Skjáskot/SkySports

Aðeins koma leikmenn sem eru heilir heilsu til greina í liðið en Carragher telur Harry Maguire, Bruno Fernandes og Marcus Rashford skáka Joel Matip, Gini Wijnaldum og Roberto Firmino.

Paul Ince er einn fárra leikmanna sem hefur leikið fyrir bæði þessi félög og var hann einnig fenginn til að setja saman sterkasta mögulega liðið úr leikmannahópum erkifjendanna.

Skjáskot/SkySports

Eins og sjá má er lið Ince keimlíkt vali Carragher nema hvað að Ince setur franska miðjumanninn Paul Pogba á miðjuna í stað Thiago.

Leikur Liverpool og Man Utd hefst klukkan 16:30 og verður fylgst með hverju skrefi í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Klopp gefur lítið fyrir ummæli Solskjær

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, gefur lítið fyrir ummæli Ole Gunnars Solskjær, stjóra Man. United, að það kæmi á óvart ef að United myndi ná að vinna ensku meistarana á þeirra heimavelli á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×