Hvorki Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra né Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra höfðu heyrt af málinu nú í hádeginu. Því er ekki ljóst hvort breytingin hafi áhrif hér á landi.
Fram kemur í tilkynningu norsku lýðheilsustofnunarinnar að 7.800 færri skammtar berist til Noregs í næstu viku en áætlað var.
Breytingarnar á dreifingaráætluninni eru raktar til endurskipulagningar á framleiðslu hjá Pfizer, sem hyggst auka framleiðslugeta sína. Þegar þeirri vinnu er lokið verður aftur hægt að fjölga skömmtum; fram kemur í tilkynningu norsku lýðheilsustofnunarinnar að framleiðslugetan aukist úr 1,3 milljörðum skammta á ári í tvo milljarða.
Fréttastofa hefur óskað eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu um möguleg áhrif breytinganna hér á landi. Forstjóri Lyfjastofnunar vísar á ráðuneytið og þá hefur ekki náðst í forstjóra Distica, sem sér um dreifingu bóluefnis Pfizer hér á landi. Sóttvarnalæknir hafði ekki heyrt af málinu í morgun.
Ísland hefur tryggt sér 250 þúsund skammta frá Pfizer, sem duga fyrir 125 þúsund manns. Þegar hafa tíu þúsund skammtar frá Pfizer komið til landsins. Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu frá því fyrr í vikunni segir að 33 þúsund skammtar berist til viðbótar frá janúar til lok marsmánaðar.
„Líklegt er þó að fleiri skammtar muni berast á þessu tímabili vegna þeirra viðbótarsamninga sem Evrópusambandið hefur gert en áætlun um það mun liggja fyrir um miðjan janúar.“
Tilkynning Lýðheilsustofnunar Noregs.
Fréttin hefur verið uppfærð.