Erlent

Farþegar til Englands þurfa að framvísa neikvæðu vottorði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Heathrow-flugvelli í London.
Frá Heathrow-flugvelli í London. Vísir/getty

Farþegar sem hyggjast ferðast í gegnum England þurfa að framvísa neikvæðu Covid-vottorði til að fá inngöngu í landið frá og með næsta mánudegi, 18. janúar. Vottorðið má ekki vera eldra en þriggja daga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá breskum stjórnvöldum í dag. Fyrirkomulagið tekur gildi klukkan fjögur að morgni 18. janúar og farþegar sem leggja leið sína til Englands fyrir þann tíma þurfa því ekki að framvísa vottorði. Þeir eru þó hvattir til að fara í Covid-próf fyrir brottför, að því er segir í tilkynningu.

Fyrirkomulagið gildir um alla farþega, einnig breska ríkisborgara og ríkisborgara þeirra landa sem undanskilin eru sóttkví við komu til Englands, þar á meðal Ísland.

„Ef þú framvísar ekki vottorði um neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku gæti þér verið meinaður aðgangur að öllum samgönguleiðum til að ferðast til Englands. Ef þú kemur til Englands án neikvæðs vottorðs gætir þú verið sektaður/sektuð um 500 pund,“ segir í tilkynningu stjórnvalda. 500 pund eru um 88 þúsund íslenskar krónur á núverandi gengi.

Þá þarf veiruprófið sem farþeginn gengst undir að uppfylla ákveðin skilyrði; til að mynda um næmi og nákvæmni. Farþeginn sjálfur þarf að tryggja að prófið uppfylli þessi skilyrði.

Engar brottfarir til Englands eru skráðar á flugáætlun Isavia, sem nær til og með 16. janúar. Hyggist fólk leggja leið sína til Englands frá Íslandi eftir fjögur að morgni næsta mánudags þarf það að útvega sér vottorði ekki síðar en á morgun, 15. janúar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×