Enski boltinn

Fáir þekkja einn af þeim sex sem hefur „lifað“ allan Klopp-tímann hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Taiwo Awoniyi á fullri ferð með boltann í leik með Union Berlin á móti Wolfsburg á dögunum.
Taiwo Awoniyi á fullri ferð með boltann í leik með Union Berlin á móti Wolfsburg á dögunum. Getty/Mathias Renner

Jürgen Klopp hefur byggt upp nýtt lið á Anfield og fjöldi leikmanna hafa bæði komið og farið síðan hann tók við. Það eru því ekki margir sem hafa verið hjá félaginu alla hans knattspyrnustjóratíð.

Aðeins sex leikmenn hafa verið leikmenn Liverpool allan stjóratíma Jürgen Klopp á Anfield en það eru Joe Gomez, James Milner, Jordan Henderson, Roberto Firmino, Divock Origi og Taiwo Awoniyi.

Þessi fyrstu fimm kannast nú flestir við enda að spila reglulega með Englandsmeisturunum. Marga rekur hins vegar í rogastans þegar þeir sjá síðasta nafnið í þessari upptalningu.

Það er kannski ekkert skrýtið því hinn 23 ára gamli Nígeríumaður hefur aldrei spilað fyrir Liverpool. Hann hefur aftur á móti verið leikmaður félagsins frá árinu 2015.

Awoniyi kom til Liverpool í ágúst 2015 aðeins sautján ára gamall eftir að hafa verið uppgötvaður hjá Imperial Soccer Academy. Hann er 183 sentímetra framherji og var unglingastjarna.

Vandamál með að fá atvinnuleyfi í Englandi hefur meðal annars séð til þess að Taiwo Awoniyi hefur aldrei spilað fyrir sitt félag.

Liverpool hefur nú lánað hann sjö sinnum á þessum rúmu fimm árum en á þessu tímabili spilar Taiwo Awoniyi með Union Berlin í þýsku deildinni og er að gera góða hluti.

Það er einmitt frammistaðan hans í vetur sem hefur komið nafni hans aftur í umræðuna. Taiwo Awoniyi er með 5 mörk og 2 stoðsendingar í 13 leikjum.

Öll þessi fimm mörk og þessar tvær stoðsendingar hafa komið í síðustu átta leikjum en hann kom ekki að marki með Union Berlin liðinu fyrr en undir lok nóvember. Það er þessi frammistaða að undanförnu sem þykir benda til þess að strákurinn gæti mögulega átt framtíð í Liverpool liðinu.

Taiwo Awoniyi er með samning við Liverpool til 30. júní 2023 og nú er að sjá hvort hann nái að spila fyrir sitt félag áður en samningurinn rennur út.

Fyrir þá sem vilja vita meira um sögu Taiwo Awoniyi þá má finna hana í grein á First Time Finish vefnum eða með því að smella hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.