Erlent

For­sætis­ráð­herra Eist­lands segir af sér í skugga mútu­máls

Atli Ísleifsson skrifar
Jüri Ratas hefur gegnt embætti forsætisráðherra Eistlands frá árinu 2016.
Jüri Ratas hefur gegnt embætti forsætisráðherra Eistlands frá árinu 2016. Getty

Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands, hefur ákveðið að segja af sér. Frá þessu greindi forsætisráðherrann í morgun en þrýstingur á Ratas hefur aukist mikið síðustu misserin vegna mútumáls sem fjöldi háttsettra stjórnmálamanna í landinu hefur verið bendlaður við.

„Í stjórnmálum verður að taka erfiðar ákvarðanir til að leysa erfið mál,“ segir Ratas að sögn eistneskra fjölmiðla.

SVT segir frá því að spillingarmálið snúi að rannsókn á byggingu verslunarmiðstöðvar í höfuðborginni Tallinn. Mikill fjöldi háttsettra stjórnmálamanna innan stjórnarflokksins, Miðflokksins, kemur þar við sögu og þá sé rannsakað hvað hafi orðið um tugi milljóna evra, sem eyrnamerktir voru til stuðnings fyrirtækja vegna heimsfaraldursins.

Jüri Ratas segir í yfirlýsingu að hann þekki ekki til þess að lögbrot hafi verið framin, en að hann sem leiðtogi flokksins beri sem slíkur ábyrgð. Því hafi hann ákveðið að segja af sér.

Mútugreiðslur og fjársvik

Lögregla í Eistlandi hefur handtekið fjölda fólks vegna málsins – fólk sem grunað er um mútugreiðslur og fjársvik. Í hópi grunaðra eru framkvæmdastjóri Miðflokksins og ráðgjafi fjármálaráðherrans.

Ratas hefur gegnt embætti forsætisráðherra frá árinu 2016 og hefur frá kosningunum 2019 leitt samsteypustjórn Miðflokksins og Isamaa, ásamt popúlistaflokksins Ekre.

Reiknað er með að Jüri Ratas gangi á fund Eistlandsforseta síðar í dag þar sem hann greini honum formlega frá afsögn sinni. Forsetinn mun svo fá það hlutverk að veita öðrum umboð til stjórnarmyndunar.


Tengdar fréttir

Hættir í kjöl­far um­mæla um banda­rísku kosningarnar

Mart Helme, innanríkisráðherra Eistlands og meðlimur hægri öfgaflokksins Ekre, hefur sagt af sér embætti í kjölfar umræðu um orð sem hann lét falla í lok síðustu viku þar sem hann efaðist um sigur Joes Biden í bandarisku forsetakosningunum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.