Erlent

Búið að bólusetja Elísabetu og Filippus

Eiður Þór Árnason skrifar
Vangaveltur voru um það hvort elstu meðlimir bresku konungsfjölskylunnar hafi hlotið bólusetningu við Covid-19.
Vangaveltur voru um það hvort elstu meðlimir bresku konungsfjölskylunnar hafi hlotið bólusetningu við Covid-19. Getty/Tim Graham

Elísabet II Bretadrottning og Filippus prins, hertogi af Edinborg voru í dag bólusett við Covid-19. Bættast hjónin þar með í hóp um 1,5 milljón Breta sem hafa allavega fengið fyrri skammtinn af bóluefni.

Breska konungshirðin greindi frá þessu í dag en breska ríkisútvarpið hefur eftir heimildarmanni sínum innan konungsfjölskyldunnar að Bretadrottning hafi með tilkynningunni viljað binda enda á vangaveltur um bólusetningu þeirra. Elísabet sem er 94 ára gömul og Filippus, 99 ára, voru bólusett af lækni í Windsor-kastala en fólk yfir áttræðu er meðal fyrstu hópanna til að hljóta bólusetningu í Bretlandi.

Hjónin hafa dvalið í Windsor-kastala á meðan útgöngubann gildir í Englandi. Ákváðu þau að dvelja þar og taka því rólega yfir jólahátíðina í stað þess að halda hefðbundnari fjölskyldusamkomur á sveitasetri konungsfjölskyldunnar í Sandringham.

Kórónaveirufaraldurinn hefur verið í miklum vexti í Bretlandi undanfarnar vikur. Ráðamenn lýstu yfir neyðarástandi í London í gær af ótta við að sjúkrahús í borginni ráði ekki við fjölgun frekari fjölgun innlagna í tengslum við kórónaveirufaraldurinn. Á rúmri viku hefur sjúklingum í London sem þurft hafa í öndunarvél fjölgað um 42 prósent og voru rúmlega sjö þúsund á sjúkrahúsi í borginni í gær vegna Covid-19.


Tengdar fréttir

Evrópuþjóðir verði að grípa til harðari aðgerða vegna afbrigðisins

Hans Kluge, yfirmaður Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir nýtt afbrigði kórónuveirunnar geta leitt til frekara álags á heilbrigðiskerfi víða um álfuna sem nú þegar eru undir miklu álagi. Því þurfi lönd að grípa til harðari aðgerða til að sporna við frekari útbreiðslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×