Innlent

Breyttar ferðatakmarkanir í Bretlandi og Danmörku

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð

Breyttar ferðatakmarkanir eru í Bretlandi og Danmörku vegna faraldurs kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu.

Frá tíunda til sautjánda janúar verður landamæraeftirlit Danmerkur hert fyrir komur frá öllum löndum. Ferðamenn með lögmætt erindi fá einungis landgöngu og hefur skilgreiningin á lögmætu erindi verið hert. Nánar má lesa um breytinguna hér.

Frá því klukkan 17 á morgun þurfa allir farþegar sem koma inn í landið með lögmætt erindi að framvísa neikvæðu Covid-19 prófi sem ekki er eldra en 24 tíma. Hraðpróf verða einnig tekin gild og þarf ekki einungis að vera um PCR próf að ræða. 

Aðrar reglur gilda fyrir fólk í millilendingu, fólk sem flytur vörur til og frá Danmörku og fólk búsett á landamærum. Nánari upplýsingar veitir upplýsingasími dönsku lögreglunnar í síma +45 70206044.

Icelandair kemur til móts við farþega

Samkvæmt upplýsingafulltrúa Icelandair er verið að hafa samband við alla þá farþega flugfélagsins sem eiga bókað flug til Kaupmannahafnar á sunudag, mánudag eða þriðjudag. Farþegum verður boðið að flýta fluginu og fljúga í fyrramálið - áður en ofangreindar aðgerðir taka gildi. Einnig verður í boði að seinka flugi farþegum að kostnaðarlausu.

Þeim farþegum, sem vilja þiggja slíka ráðstöfun, er bent á að hafa samband við flugfélagið. Tvö hundruð farþegar eiga flug til Kaupmannahafnar á dag með Icelandair frá og með morgundeginum og fram á þriðjudag.

Farþegar frá Íslandi þurfa ekki í sóttkví í Bretlandi

Allir farþegar, ellefu ára og eldri, sem koma til Bretlands frá og með næstu viku þurfa að sýna fram á neikvætt Covid-19 próf sem er ekki eldra en 72 klukkutímar.

Eins og áður þurfa allir farþegar að fylla út svokallað „Passenger Locator Form“. Þeir farþegar sem ferðast frá ríkjum sem eru ekki á grænum lista breskra stjórnvalda þurfa samt sem áður að fara í sóttkví í 10 daga, þrátt fyrir neikvætt próf. Ísland er núna á græna listanum og þurfa farþegar þaðan því ekki að fara í sóttkví.

Ítarlegar upplýsingar um allar breytingar vegna faraldurs kórónuveirunnar má finna á ferðavef Utanríkisráðuneytisins.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá Icelandair



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×