Erlent

Boeing 737 vél með sex­tíu far­þega horfin: Telja sig hafa fundið brak úr vélinni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Flug SJ182 hvarf af radar stuttu eftir flugtak.
Flug SJ182 hvarf af radar stuttu eftir flugtak. EPA-EFE/Gusti Fikri Izzudin Noor

Flugvél indónesíska flugfélagsins Sriwijaya Air, flug SJ182, hvarf af radar stuttu eftir flugtak frá Jakarta í morgun. Um er að ræða Boeing 737-500 vél en hún hafði lækkað flugið um tíu þúsund fet á tæpri mínútu áður en hún hvarf af radar. Flugvélin hvarf aðeins fjórum mínútum eftir að hún hófst á loft.

Vélin var á leið til Pontianak á Brúnei en hún hvarf norður af strönd Jakarta. Vélin hafði lækkað flugið um tíu þúsund fet á minna en mínútu áður en hún hvarf af radar. Talið er að 62 hafi verið um borð, þar af 56 farþegar. Af þeim eru sjö börn og þrjú ungbörn. Þá eru sex í áhöfninni um borð.

Björgunaraðgerðir eru nú í gangi að sögn samgönguráðuneytisins. Síðast náðist samband við vélina klukkan 14:40 að staðartíma, eða klukkan 7:40 að íslenskum tíma. Vélin er 27 ára gömul Boeing 737-500 flugvél.

Viðbragðsaðilar telja sig hafa fundið brak úr flugvélinni í sjónum undan strönd Jakarta. Ekki hefur fengist staðfest hvort að um brak úr véllinni sé að ræða. Íbúar á eyju skammt frá staðnum sem flugvélin hvarf hafa sagt að eitthvað hafi „hrapað og sprungið,“ nálægt eyjunni Male. Þá segjast íbúar á eyjunni hafa fundið brak úr vélinni, sem sýnt var í sjónvarpsfréttum á Indónesíu.

Ekki er um að ræða Boeing 737 Max vél, sem voru kyrrsettar í kjölfar þess að tvær vélar af þeirri gerð hröpuðu í Indónesíu og Eþíópíu árin 2018 og 2019 þar sem samtals 346 fórust. Kyrrsetningu 737 Max vélanna hefur nýlega verið aflétt.

Fréttin var uppfærð með nýjustu upplýsingum klukkan 13:11.


Tengdar fréttir

Boeing greiðir 2,5 milljarða dala fyrir að leyna upplýsingum um 737 Max slysin

Flugvélaframleiðandinn Boeing hefur ákveðið að greiða 2,5 milljarða Bandaríkjadala, eða um 316 milljarða íslenskra króna, fyrir að hafa leynt upplýsingum um Boeing 737 Max vélarnar í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa. Framleiðandinn gerir það í stað þess að hætta á að málið fari fyrir dómstóla.

Færri flug, færri flugslys, fleiri dauðsföll

Fleiri létust í flugslysum þar sem farþegaflugvélar áttu í hlut á nýliðnu ári en árið 2019, þrátt fyrir að mun færri flugslys hafi orðið á sama tíma og flugferðum fækkaði mikið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.