Enski boltinn

Milner glotti við tönn: Fjórir leik­menn Villa ekki fæddir þegar hann lék sinn fyrsta leik með aðalliði Leeds

Anton Ingi Leifsson skrifar
James Milner í baráttunni við Arjan Raikhy. Arjan Raikhy var ekki fæddur er Milner spilaði sinn fyrsta leik í aðalliðsbolta.
James Milner í baráttunni við Arjan Raikhy. Arjan Raikhy var ekki fæddur er Milner spilaði sinn fyrsta leik í aðalliðsbolta. Andrew Powell/Getty Images

James Milner, vinstri bakvörður Liverpool í 4-1 sigrinum á Aston Villa í kvöld, hrósaði unga Villa liðinu fyrir leik sinn í kvöld en staðan eftir klukkutímaleik var 1-1.

Sadio Mane kom Liverpool yfir en Villa jafnaði með marki frá táningnum Louie Barry. Eftir klukkutíma leik gengu þó ensku meistararnir á lagið og það gladdi James Milner.

„Þetta eru góðir piltar. Þeir unnu vel fyrir þessu og í fyrri hálfleik skoruðu þeir sem hvatti þá áfram. Við náðum í úrslitin að endingu en þetta var ekki kjör staða fyrir okkur,“ sagði Milner í leikslok.

„Við komumst í góðar stöður en lokasendingin var að klikka. Það er það sem hefur verið að í síðustu leikjum og þurfum að halda áfram að vinna í að þessir hlutir falli með okkur.“

„Við vissum að við þyrftum að gera hlutina betur og vorum ekki að gera þá vel, sérstaklega skömmu fyrir þeirra mörk, en einn leikmaðurinn þeirra sagðist ekki hafa spilað í tvo mánuði,“ sagði Milner.

Skemmtileg staðreynd úr leik kvöldsins: Fjórir leikmenn í byrjunarliði Aston Villa voru ekki fæddir er Milner lék sinn fyrsta leik með aðalliði Leeds. Hann fékk að vita þetta í viðtali eftir leikinn og svarið hans var einfalt: „Takk fyrir þetta,“ áður en hann brosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×