Enski boltinn

Kæmi Ber­batov ekki á ó­vart ef að De Beek myndi yfir­gefa Man. United eftir fjóra mánuði hjá fé­laginu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Van De Beek skipt af velli í þeim fáu leikjum sem hann hefur byrjað.
Van De Beek skipt af velli í þeim fáu leikjum sem hann hefur byrjað. Ash Donelon/Getty

Dimitar Berbatov, fyrrum framherji Manchester United, segir að hann væri ekki hissa ef að miðjumaðurinn Donny van de Beek væri byrjaður að líta í kringum sig og vilji komast frá félaginu.

Hollendingurinn gekk í raðir United frá Ajax á 40 milljónir punda í september en hann hefur ekki fengið mörk tækifæri undir stjórn Ole Gunnars Solskjær.

Hann hefur einungis byrjað átta leiki frá komunni og er undir í baráttunni við miðjumenn eins og Paul Pogba og Bruno Fernandes hvað varðar spiltíma.

„Ég veit ekki hvað er að gerast með Donny van De Beek,“ sagði hann í samtali við Betfair en Daily Mail greinir frá. „Ég sagði þegar hann skrifaði undir að mér fannst hann góður leikmaður. Hann var frábær hjá Ajax og hjá landsliðinu en núna fær hann ekki leik hjá United.“

„Ég er ekki að horfa á æfingarnar og þessi litli tími sem hann fær á vellinum er ekki nóg til þess að dæma hann. Hann þarf runu af leikjum til þess að fá sjálfstraust og það er eðlilegt því þegar þú ert ekki að spila refsarðu sjálfum þér og spyrð þig spurninga.“

„Ég væri ekki hissa ef að hann væri byrjaður að líta í kringum sig og enginn myndi dæma hann. Það er eitthvað sem er ekki að virka þarna. Bruno, Pogba, McTominay og Fred eru allir á undan honum í röðinni,“ sagði Berbatov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×