Erlent

Lyfjastofnun Evrópu samþykkir dreifingu bóluefnis Moderna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bóluefni Moderna verður fljótlega dreift um Evrópu.
Bóluefni Moderna verður fljótlega dreift um Evrópu. Getty

Lyfjastofnun Evrópu ákvað á fundi sínum í dag að mæla með skilyrtu markaðsleyfi fyrir bóluefni lyfjaframleiðandans Moderna í Evrópu. Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins afgreiði leyfið í dag og dreifing á bóluefninu hefjist fljótlega.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lyfjastofnun Evrópu nú skömmu eftir hádegi. Þá er búist við að markaðsleyfi fyrir bóluefninu fáist á Íslandi strax og leyfið liggur fyrir í Evrópu, einnig í dag. 

Bóluefni Moderna er annað bóluefnið gegn kórónuveirunni sem Lyfjastofnun Evrópu samþykkir en bóluefni Pfizer og BioNTech fékk skilyrt markaðsleyfi í Evrópu í desember. Bólusetningar hófust í álfunni fyrir áramót.

Bólusetningar með Moderna-bóluefninu eru þegar hafnar í löndum á borð við Bandaríkin og Kanada. Í tilkynningu Lyfjastofnunar Evrópu segir að bóluefnið sé öruggt og muni reynast enn eitt vopnið í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. 

Rannsóknir á bóluefni Moderna sýna að það veiti um 94 prósent vörn gegn veirunni. Bóluefnið er gefið í tveimur skömmtum, líkt og bóluefni Pfizer, og byggir einnig á svokallaðri mRNA-tækni.

Ísland hefur tryggt sér 128 þúsund skammta af bóluefni Moderna sem duga fyrir 64 þúsund manns. Tilkynnt var í gær að von væri á samtals fimm þúsund skömmtum af bóluefninu til landsins í janúar og febrúar, sem duga fyrir 2.500 manns. Eftir febrúar er gert ráð fyrir að afhending verði hraðari.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Tæki allt að tvo mánuði að meta hálfa skammtastærð

Yfirvöld í Bandaríkjunum vilja kanna hvort mögulegt sé að helminga skammtastærðir af bóluefni Moderna til þess að ná að bólusetja fleiri, eftir að ljóst varð að ekki myndi nást að bólusetja jafn marga og vonir stóðu til á fyrstu stigum. 

Fimm þúsund skammtar frá Moderna væntanlegir í janúar og febrúar

Gert er ráð fyrir að Ísland fái samtals fimm þúsund skammta af bóluefni Moderna í janúar og febrúar, sem duga fyrir 2.500 manns. Eftir það verði afhending hraðari. Alls á Ísland von á 128 þúsund skömmtum frá Moderna sem duga fyrir 64 þúsund manns.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.