Erlent

Tæki allt að tvo mánuði að meta hálfa skammtastærð

Sylvía Hall skrifar
Bóluefni Moderna hefur enn sem komið er ekki fengið leyfi í Evrópu, þó líklegt sé að það fáist á morgun.
Bóluefni Moderna hefur enn sem komið er ekki fengið leyfi í Evrópu, þó líklegt sé að það fáist á morgun. Getty

Yfirvöld í Bandaríkjunum vilja kanna hvort mögulegt sé að helminga skammtastærðir af bóluefni Moderna til þess að ná að bólusetja fleiri, eftir að ljóst varð að ekki myndi nást að bólusetja jafn marga og vonir stóðu til á fyrstu stigum. 

Vísindamenn hjá Moderna og Bandarísku heilbrigðisstofnuninni reikna með því að slík athugun taki allt að tvo mánuði, að því er fram kemur í frétt Reuters um málið.

Yfirmaður Operation Warp Speed, sem fer með yfirstjórn bólusetningarátaksins vestanhafs, staðfesti í viðtali við CBS á sunnudag að yfirvöld væru í viðræðum við Moderna og Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna um þessar hugmyndir en sérfræðingar Moderna vildu ekki tjá sig um málið fyrr en nú. 

Matvæla- og lyfjaeftirlitið sagði þó hugmyndirnar á algjöru byrjunarstigi og að engin gögn sýndu fram á að slíkt væri mögulegt.

Samkvæmt tölum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) hafa yfir 4,8 milljónir fengið fyrsta skammt af bóluefni í landinu. Þá hefur 17 milljónum skammta verið dreift um landið.

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu fundaði um leyfi fyrir bóluefni Moderna í gær en fundinum lauk án þess að leyfið væri afgreitt. Búist er við því að það verði afgreitt á fundi morgundagsins. 

Fari svo að mælt verði með útgáfu leyfis, og að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefi í kjölfarið út markaðsleyfi, mun Lyfjastofnun gefa út markaðsleyfi fyrir Ísland en Íslendingar hafa samið um skammta frá Moderna fyrir 64 þúsund manns.


Tengdar fréttir

Fimm þúsund skammtar frá Moderna væntanlegir í janúar og febrúar

Gert er ráð fyrir að Ísland fái samtals fimm þúsund skammta af bóluefni Moderna í janúar og febrúar, sem duga fyrir 2.500 manns. Eftir það verði afhending hraðari. Alls á Ísland von á 128 þúsund skömmtum frá Moderna sem duga fyrir 64 þúsund manns.

Lyfjastofnun klár um leið og leyfi Moderna liggur fyrir

Búist er við því að bóluefni Moderna fái markaðsleyfi hér á landi á morgun og forstjóri Lyfjastofnunar gerir ráð fyrir að dreifing hefjist fljótlega. Íslendingar hafa samið um að fá skammta frá Moderna fyrir 64 þúsund manns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×