Erlent

Einn ríkasti maður Kína hefur ekki sést í tvo mánuði

Samúel Karl Ólason skrifar
Auðæfi Jack Ma hafa skroppið verulega saman á undanförnum mánuðum en hann hefur ekki sést opinberlega frá því í lok október.
Auðæfi Jack Ma hafa skroppið verulega saman á undanförnum mánuðum en hann hefur ekki sést opinberlega frá því í lok október. AP/Firdia Lisnawati

Auðjöfurinn kínverski, Jack Ma, sem stofnaði meðal annars stórfyrirtækið Alibaba, hefur ekki sést opinberlega í rúma tvo mánuði. Fjarvera hans í afrískum sjónvarpsþáttum, sem hann stendur á bak við, og það að hann hafi ekki sést svo lengi á meðan fyrirtæki hans eru undir miklum þrýstingi hefur leitt til vangaveltna um hvar Ma sé staddur.

Ma sást síðasta opinberlega í lok október þegar hann var staddur á ráðstefnu í Sjanghæ. Þar gagnrýndi hann reglukerfi Kína harðlega og leiddi það til deilna við embættismenn. Skömmu seinna var áætlað að skrá félag hans, fjármálafyrirtækið Ant Group, á markað og halda fyrsta útboð verðbréfa, en yfirvöld í Kína stöðvuðu það.

Áður hafði útboðið þó verið heimilað.

Talsmaður Alibaba sagði Reuters fréttaveitunni að Ma hefði ekki tekið þátt í lokaþætti Africa's Business Heroes, þar sem hann hefur verið dómari, vegna þess hann hefði verið upptekinn. Talsmaðurinn vildi þó ekki tjá sig frekar. Þátturinn var tekinn upp í nóvember.

Frá því að Ma lét ummæli sín um regluverk Kína falla í október hafa yfirvöld landsins farið í hart gegn fyrirtækjum auðjöfursins.

Ma kom við á Íslandi árið 2015.

Alibaba er til rannsóknar vegna meintra samkeppnisbrota og eins og áður hefur komið fram var fyrsta útboð verðbréfa Ant Group stöðvað. Þar að auki var félaginu skipað að draga úr umsvifum sínum.

Ma var ríkasti maður Kína fyrir skömmu en verulega hefur dregið úr eigum hans. Samkvæmt Business Insider er hann metinn á um 50,6 milljarða dala. Fyrir um tveimur mánuðum var sú tala tólf milljörðum hærri.

Hann er nú fjórði ríkasti Kínverjinn.

Wall Street Journal sagði frá því fyrir áramót að ráðamenn í Peking ætluðu sér að draga úr völdum og auð Ma. Að ríkið myndi taka yfir stærri hluta fyrirtækja hans. Sjónir þeirra eru sagðar hafa beinst sérstaklega að Ant Group.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.