Erlent

Trump sakar demókrata um valdarán í harðorðu bréfi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nancy Pelosi og Donald Trump.
Nancy Pelosi og Donald Trump. Vísir/AP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sakaði demókrata á þingi um „ólöglegt valdarán“ og að heyja stríð gegn lýðræðinu, í bréfi sem hann skrifaði og stílað var á Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Á morgun er gert ráð fyrir því að fulltrúadeildin muni samþykkja að ákæra Trump formlega fyrir embættisbrot. Atkvæði um slíkt verða greidd á morgun en demókratar eru með meirihluta í neðri deild Bandaríkjaþings.

Bréf Trump, sem lesa má hér, er nokkuð harðort í garð Demókrata og sagðist hann sannfærður um að tilraunir þeirra til að fjarlægja hann úr embætti forseta myndu mistakast hrapalega. Þeir þyrftu að glíma við afleiðingarnar í næstu kosningu, eftir tæpt ár.

„Með því að halda þessum ásökunum til streitu eru þið að brjóta embættiseið ykkar, þið eruð að brjóta hollustu ykkar við stjórnarskránna og þið munið lýsa yfir stríð gegn lýðræði í Bandaríkjunum,“ er meðal þess sem kemur fram í bréfinu.

Samþykki fulltrúadeildin að ákæra Trump verða haldin réttarhöld í öldungadeildinni, þar sem Repúblikanar eru með meirihluta.


Tengdar fréttir

Þingmenn sem standa höllum fæti styðja ákærurnar gegn Trump

Nokkrir þingmenn Demókrataflokksins, sem þykja flestir nær miðjunni en gengur og gerist og koma frá svokölluðum sveifluríkjum, hafa lýst því yfir að þeir muni greiða atkvæði með því að ákæra Donald Trump, forseta, fyrir embættisbrot.

Ákærurnar samþykktar úr nefnd eftir flokkslínum

Allir þingmenn fulltrúadeildarinnar munu svo greiða atkvæði um ákærurnar í næstu viku. Því næst fer málið fyrir öldungadeildina, þar sem nokkurs konar réttarhöld fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×